Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:26:05 (177)

1997-10-08 16:26:05# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:26]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Á 120. þingi flutti ég till. til þál. um verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Nokkuð hrærði sú þáltill. upp í hugum manna varðandi reksturinn og var það vel. Vonandi að þetta sé fyrsta skref í átt til þess að þar megi reka betri og frjálsari verslun en raun ber vitni nú.

Það er aðeins ein örstutt athugasemd sem ég vildi koma með og beina fyrirspurn minni til hæstv. utanrrh. Í reglugerð nr. 94/1957 er afgerandi í 1. gr. svohljóðandi setning sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Flugráð fer með stjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli undir yfirstjórn utanrrh.``

Varðandi þetta mál kannast ég ekki við það að flugráð hafi fengið nokkurn hlut um þetta mál að vita, hvað þá heldur að til þess hafi verið leitað með umsagnir eða samstarf varðandi málið. Ég tel að staða flugráðs sé óyggjandi varðandi hvers konar flugrekstur á Keflavíkurflugvelli sem þar á að koma að með meiri og öðrum hætti en raun ber vitni. En fyrst og síðast, þetta er skref í rétta átt og vonandi að frekar verði nú tekinn upp frjáls verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að efla þar verslun og viðskipti þá væntanlega til frekari hagsbóta fyrir rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.