Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:32:26 (182)

1997-10-08 16:32:26# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:32]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst þetta vera dálítið varasöm umræða því að það leikur grunur á að hér hafi verið beitt óvönduðum vinnubrögðum við útboð. Það er mjög alvarlegt og trúnaðarbrestur hefur orðið í samskiptum manna út af þessu máli.

Mér finnst svör hæstv. ráðherra ekki vera sannfærandi um það að vísa mönnum bara dómstólaleiðina ef þeir telja á sér brotið. Mér finnst þetta vera verra mál en það þegar skoðað er að þeir aðilar sem bjóða í eru dæmdir úr leik á óljósum forsendum. Svo virðist vera að hér sé tekið tilboði sem hugnast mönnum betur. Við þekkjum dæmi úr einkavinavæðingu þessarar ríkisstjórnar, þ.e. SR-salan á sínum tíma þegar menn fengu ekki tækifæri til að standa við hæsta tilboð. Mér finnst vera mjög mikilvægt að það sé tiltrú í útboðsviðskiptum. Það má ekki verða brestur á því og ef það er rétt eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Árna Mathiesen að legið hafi fyrir villandi upplýsingar í útboðsgögnum, ef rangt er staðið að útboði, þá ber að endurtaka það.

Mér finnst, herra forseti, að utanrmn. eigi að skoða þetta mál. Flugstöð Leifs Eiríkssonar heyrir undir utanrmn. og hún á að fara yfir þetta mál, kalla aðila fyrir og sjá til þess að það ríki trúnaðartraust aftur í sambandi við þá brýnu uppstokkun sem fer að verða á málefnum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.