Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:34:08 (183)

1997-10-08 16:34:08# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:34]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að skjóta sér á bak við ráðgjafa. Hann er sá sem ábyrgðina ber sökum þess að verksali og verkkaupi raunar líka er Flugmálastjórn sem heyrir undir hann. Ég er búinn að lesa spjaldanna á milli útboðsgögnin sem eru upp á 32 blaðsíður. Það er ekkert í þeim sem hefur sannfært mig um réttmæti þess að þau tvö tilboð sem hæst voru voru dæmd ógild og auðvitað er það á ábyrgð ráðherrans að fara í gegnum þær málefnalegu forsendur sem að baki liggja og því árétta ég mína spurningu: Er það hans skoðun og hans mat eftir að hann lét sína undirmenn skrifa undir þennan verksamning að dótturfyrirtæki Atlanta, þessa stórfyrirtækis, hafi ekki haft nægilega reynslu til að takast á hendur þetta verkefni? Er það hans skoðun? Er hann sammála ráðgjafanum um það? Það er lykilatriði í málinu. Þess vegna er ég að kalla á hans svör í þessari umræðu. Það þýðir ekkert að afgreiða málið hér út um gluggann með því að segja: ,,Þessir aðilar geta bara sótt sinn rétt hjá kærunefnd eða dómstólum eða hvaðeina.`` Hér er um pólitískt mál að ræða, pólitískt kjörinna aðila, framkvæmdarvald í þessu tilfelli, sem við erum dómstóll um. Þess vegna erum við að ræða málið hér.

Um þjónustusamninga að öðru leyti, þá upplýsti ráðherra það hér að þó að óljóst sé hvort þeim hafi verið sagt upp á réttum tíma eður ei, að viðræða væri í gangi. Ég spyr: Geta aðrir en Flugleiðir samkvæmt því, komið að þeim viðræðum og lýst sínum áhuga og óskum í þeim efnum eða er eingöngu um það að ræða að Flugleiðir taki þátt í þeim viðræðum um framtíðarskipan þjónustumála á flugvöllum í heild og breidd inn í lengri framtíð?

Hér hafa menn rætt um útboðsleiðina. Ég hef haft mínar efasemdir um að þær breytingar sem átt hafa sér stað í Leifsstöð skili þeim fjármunum sem til er ætlast. Reynslan mun skera úr um það. Hún er ekki komin á daginn, það er langur vegur frá. Ég vona hið besta en er viðbúinn hinu versta. Ríkiseinokun getur verið slæm en guð hjálpi okkur þegar einkafyrirtækjaeinokunin ríður í garð eins og mér virðist ætla að verða í Leifsstöð í stórum stíl. Það er það versta sem við getum kallað yfir okkur og það er einmitt það sem er að gerast, virðulegi forseti.