Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:30:07 (191)

1997-10-08 18:30:07# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:30]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að bregaðst við fyrirspurnum mínum. Í fyrsta lagi hefur niðurskurðurinn á lyfjakostnaðinum aldrei tekist svona. Í greinargerðum fjárlagafrv. hefur alltaf verið sagt að það ætti að ná niður lyfjakostnaði með þessum hætti og aldrei hefur tekist að standa við markmið greinargerðar fjárlagafrv. á undanförnum árum. Ég held að aðferðirnar sem hæstv. ráðherra rakti í þeim efnum muni ekki heldur ganga en ég tel það virðingarvert að hún beiti sér fyrir því að reyna að halda kostnaðinum niðri.

Veruleikinn er hins vegar sá að á sama tíma og menn hafa reynt að hafa hömlur á kostnaði ríkissjóðs hefur kostnaður einstaklinganna margfaldast. Í síðustu ríkisstjórn gagnrýndu framsóknarmenn mjög mikið og þáv. hæstv. heilbrrh. beitti sér fyrir því að kostnaðarhlutdeild í lyfjum var breytt þannig að hún var svipuð og hún var í Evrópusambandslöndunum, ef ég man rétt þá viðmiðun sem heilbrrn. hafði þá. Nú hefur heilbrrh. Framsfl. aftur á móti unnið það afrek, eða þeir framsóknarmenn, að sjúklingarnir borga hærra hlutfall af lyfjakostnaði en nokkurs staðar annars staðar í löndum sem búa við svipaðar aðstæður. Þetta er mikið umhugsunarefni.

Í öðru lagi vara ég einnig við þessu með tannlæknakostnaðinn. Mér sýnist að það sé algert skot út í loftið og bendi á að niðurstöður sýna þegar að tannheilsa barna og unglinga hefur versnað eftir að menn breyttu kerfinu eins og gert var fyrir fáeinum árum. Ég held að fólk sé á villigötum í þessu máli.

Að öðru leyti tel ég að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað nema hluta af þeim 700 millj. sem ég spurði um áðan. Það eru tannlækningar og það eru lyf, hvað á að skera niður fyrir þær 100, 200 eða 300 millj. sem eru eftir af þeim 700 sem teknar eru eftir að upphæðin hefur verið uppreiknuð?