Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:32:31 (192)

1997-10-08 18:32:31# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um lyfin. Hv. þm. sagði að aldrei hefði náðst árangur með þeim aðferðum sem ég boðaði áðan en svo vill til að í ár höfum við náð verulegum sparnaði einmitt með útboðum og þau markmið sem við settum okkur á þessu ári hafa nánast náðst. Við höfðum samt háleit markmið og lyfjakostnaður hjá sjúklingum hefur lækkað. Hann hefur lækkað á þessu ári.

Hv. þm. hafði ekki trú á því að þær tillögur sem liggja fyrir um að lækka tannlæknakostnað mundu nást. Reynslan mun sýna hvort við náum þeim markmiðum. Varðandi annan sparnað kemur glöggt fram í frv. að sjúkrahúsum úti á landi er ætlað að spara um 50 millj. kr. með aukinni samhæfingu og með þeim 500 millj. sem lagðar voru til sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu í síðasta mánuði koma vissar hagræðingarkröfur á móti sem eru líka útreiknaðar í frv. Þegar á heildina er litið leggjum við meira til þessa málaflokks en við höfum gert áður og frv. sýnir, eins og hv. þm. hefur örugglega lesið, margar nýjungar og merkar sem menn hljóta að gleðjast yfir.