Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:58:38 (196)

1997-10-08 18:58:38# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:58]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni en ég spurði hann m.a. hvort honum fyndust þessar tilteknu greinar sem ég las upp í samræmi við nýsamþykkt lög sem við stóðum báðir tveir að. Og ég óska eftir því að hann svari þeirri spurningu vegna þess, herra forseti, að ég vek athygli á því að þetta er annað dæmið um það að hæstv. fjmrh. fer í tillögugerð sinni til Alþingis ekki eftir þeim lögum sem Alþingi samþykkti um það efni í fyrra.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi annað dæmi fyrr í umræðunni í dag, þ.e. hvernig hæstv. fjmrh. fer með tillögur forsætisnefndar Alþingis um fjárveitingar til starfa Alþingis. Þetta er annað dæmi um það að hæstv. fjmrh. tekur í tillögugerð sinni ekki tillit til þeirra laga sem samþykkt eru frá Alþingi þannig að við verðum þá að treysta á að fjárln. sjái um að framfylgja þeirri lagaskyldu sem á hæstv. fjmrh. á að hvíla.

Ég ítreka enn spurningu mína: Telur hv. formaður fjárln. að þær tilvitnuðu greinar sem ég las upp standist ákvæði þeirra laga um fjárreiður ríkisins sem sett voru í fyrra?