Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:02:46 (199)

1997-10-08 19:02:46# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:02]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þingmanns um mál sem ekki er hér á dagskránni, þ.e. fjáraukalögin, vil ég segja að það er rétt hjá honum að í fjáraukalagafrv. er gert ráð fyrir að veita nokkra fjármuni til gamalla húsa vegna yfirstandandi árs. Stærsta framlagið, til að nefna það hér, eru yfir 90 millj. kr. til sendiherrabústaðar í Washington sem ekki var hægt að bíða með vegna þess m.a. að þangað er að fara nýr maður. Og hver er hann? Hann er fyrrv. formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson. Að segja það hér að Stjórnarráðshúsið sé sérstök skrifstofubygging fyrir Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., þá hallar a.m.k. varla á því að það eru 95 millj. sem fara í sérstakt hús, íbúðarhús, fyrir fyrrv. formann Alþfl. En það minntist núv. formaður auðvitað ekki á.

Hv. þingmaður talaði um afkomuna á yfirstandandi ári. Sannleikurinn er sá að afkoman er mun betri á yfirstandandi ári heldur en við áttum von á eða 2,5 milljörðum kr. betri. En við tókum sérstaka ákvörðun um að innkalla spariskírteini til þess að spara okkur vexti sem áttu að greiðast miklu síðar, upp á 4 milljarða, og þess vegna verður niðurstaðan 1.200--1.300 millj. ef þetta lagafrv. nær fram að ganga.

Varðandi skattana vil ég segja að ég er tvívegis búinn að svara þessari fyrirspurn, m.a. frá alþýðuflokksmönnum, þannig ég ætla ekki að endurtaka svar mitt en hv. þm. hefur ekki hirt um að hlusta á umræðurnar í dag. Ég vil einungis segja að það verða birtir kynslóðareikningar og það er búið að gera grein fyrir jaðarskattanefndarniðurstöðunni og hún liggur fyrir.

Og loks þetta: Þegar við sátum saman í ríkisstjórn, ég og hv. þm., núverandi formaður Alþfl., þá var meðalhallinn á rekstrargrunni á ríkissjóði yfir 15 milljarðar á ári. Því er spáð að hann fari niður í 8 milljarða og á næsta ári er verið að tala um að skila afgangi. Ef þetta er ekki árangur sem hv. þingmaður getur verið sammála mér um að sé nokkur, þá er ég illa svikinn, enda er hann fyrrv. fjmrh. og veit nokkuð í þessum efnum.