Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:28:07 (204)

1997-10-08 19:28:07# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:28]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Mér fannst hann viðurkenna það að hér væri um alvarleg vandamál að ræða sem væru óuppgerð á milli ríkis og sveitarfélaga og væri ekki hægt að láta sem ekkert væri eins og mér fannst að hæstv. fjmrh. reyndi að gera þar sem hann vísaði á bug þessari meðlagadeilu sem er upp á 400--500 millj. kr., vísaði á bug ýmsum öðrum þáttum í þessari yfirlýsingu Sambands ísl. sveitarfélaga og gerði lítið úr þessum ágreiningi um 500 millj.

Ég hins vegar áttaði mig ekki á því hvað hæstv. félmrh. var að segja í sambandi við þessar 500 millj. Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að knýja sveitarfélögin til þess að lækka útsvör á næsta ári sem þessu nemur --- hvernig hugsar ríkisstjórnin sér þetta dæmi? --- vegna þess að sveitarfélögin hafa sagt: ,,Nei``. Eða er það ekki skilningur hæstv. félmrh.? Eru menn þá ekki að berja höfðinu við steininn með því að vera að halda þessu til haga í viðræðum á milli ríkisins og sveitarfélaganna eins og mér finnst að ráðherrarnir ætli að gera? Ég hlýt að spyrja hæstv. félmrh. um þetta um leið og ég endurtek þakkir mínar fyrir það hvernig hann svaraði málinu að öðru leyti.

Ég vil svo segja að lokum að mér gest miklu betur að þeirri uppsetningu mála sem hann er með í þessum efnum heldur en hæstv. fjmrh. vegna þess að hæstv. félmrh. leggur áherslu á að reynt verði að semja sig í gegnum málið og það er auðvitað þannig sem það á að vera. En ákvörðunin um 500 millj. var tekin einhliða og sveitarfélögunum stillt þar upp við vegg og verður það vonandi í síðasta sinn sem menn reyna eitthvað slíkt.