Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:30:17 (205)

1997-10-08 19:30:17# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að engin alvarleg vandamál séu á milli ríkis og sveitarfélaga eins og stendur. Hvað varðar þessar 500 millj. þá héldum við fund áður en skattalækkunarprógrammið var tilkynnt, eins og ég sagði frá áðan, og forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga féllust á að ræða um þessi mál. Nú er það ekki ég sem stend í þeim viðræðum heldur er það verkefni sem forsrh. tók að sér þannig að ég veit ekki hvað þeim samtölum líður. Við erum ekkert að knýja sveitarfélögin. Við erum að taka þetta inn í dæmið og ég vil endurtaka það að mér finnst óeðlilegt að sveitarfélögin græði á því að skattar séu lækkaðir og sveitarfélögunum var það mikilvægt að friður komst á á vinnumarkaði þannig að ég trúi ekki öðru en að einhver viðunandi niðurstaða náist í þessu efni.

Þá er það bréf sem hv. þm. las og var sent félmrh., dagsett 4. september minnir mig. Við erum reyndar búnir að tala nokkrum sinnum saman síðan þetta bréf var sent. Ég lít á þetta bréf sem opnun í viðræðum frá hendi Sambands ísl. sveitarfélaga. Í fjmrn. búa þeir til aðra lista þar sem þeir setja fram tölur um hvar hafi hallað á ríkið og hvar sveitarfélögin eigi að koma til móts við það. Það er bara eðlilegur gangur í skikkanlegum viðræðum að menn viðri sínar kröfur sitt á hvað og nái niðurstöðu, jafni út og nái niðurstöðu. Ég hef engar áhyggjur af því að það takist ekki hér á þessum vetri eins og hefur tekist á undanförnum tveimur vetrum.