Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:38:46 (210)

1997-10-08 19:38:46# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að það er veruleg skerðing í Framkvæmdasjóð fatlaðra, enda hefur ráðherrann ekki mótmælt því enda þótt það sé einhver aukning frá þessu ári sem var nú ekki mikil varðandi reksturinn og það er að verulegu leyti í tengslum við launabreytingar og rekstur allt árið á sambýlum sem þegar hafa tekið til starfa.

Ráðherrann hefur engar áhyggjur af því þó að það eigi bara að úthluta 170 íbúðum. Ég minni á að Öryrkjabandalagið og félagssamtök fatlaðra fengu ekkert úthlutað á þessu ári og ég spyr: Á það að endurtaka sig á næsta ári þegar enn á að fækka úthlutunum á því ári og umsóknir sem þegar liggja fyrir frá þeim eru um 200 og um 200 frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu? Ráðherrann hlýtur að hafa áhyggjur af því ef sjóðurinn er að stefna í gjaldþrot út af því að það hefur verulega dregið úr framlögum.

Á meðan ég fór með málefni sjóðsins var einmitt reiknað út hvað þyrfti til þess að þessi sjóður mundi verða í lagi og stefndi ekki í gjaldþrot. (Félmrh.: Og var staðið við það?) Ég stóð við það meðan ég var í ráðuneytinu. Þetta voru um 800--1.000 millj. sem voru lagðar í þann sjóð. Núna í góðærinu er þetta komið niður í hvað, 275 millj. á næsta ári.

Varðandi málefni barna, þá er náttúrlega fleira þar undir þeim málaflokki sem þarf að leggja fjármuni í heldur en bara það sem snertir sjálfræðisaldurinn. Það er alveg ljóst að manni finnst það mjög klént af þessari ríkisstjórn að þegar við búum við góðæri, skuli ekki verða lagðir meiri peningar til málefna barna heldur en raun ber vitni. Ég kom að því í minni framsögu áðan að framlög hér á landi eru helmingi minni til málefna barna og fjölskyldna þeirra en gerist í löndunum í kringum okkur.

Ég vil að lokum spyrja ráðherrann um fjölskylduráðið sem átti að skipa samkvæmt tillögu um opinbera fjölskyldustefnu sem var samþykkt hér. Fór fjölskylduráðið yfir fjárlagatillögur ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum og hver var niðurstaða ráðsins?