Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:41:11 (211)

1997-10-08 19:41:11# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Því miður er fjölskylduráðið ekki komið á laggirnar. Það hefur tafist og ég get út af fyrir sig beðist velvirðingar á því, því það er að sumu leyti mér að kenna að vera ekki búinn að stofna það og þar af leiðandi hefur það ekki farið yfir þessar fjárlagatillögur.

Eins og ég hef áður sagt tel ég að það sem máli skiptir í málefnum fatlaðra sé að það er 7% raunaukning til málaflokksins. Það er svigrúm fyrir fjórum nýjum sambýlum á næsta ári og ég vænti þess að þau komist upp.

Hvað varðar skiptingu lánsloforða í félagslega kerfinu þá hef ég ekkert með það að gera. Ég get ekki svarað því hvort Öryrkjabandalagið fær úthlutað eður ei. Það er Húsnæðisstofnun eða stjórn Húsnæðisstofnunar sem gengur frá því.

Ég vil bara undirstrika það áður en ég fer úr ræðustólnum að ég tel að hvað félmrn. varðar, þá sé þetta skynsamleg, hófsöm niðurstaða og þjóðhagslega ágætlega verjandi.