Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:43:19 (212)

1997-10-08 19:43:19# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur á meðan ég flyt mál mitt.

(Forseti (GÁ): Forseti gerir ráðstafanir í þeim efnum.)

Ég ætla að hefja mál mitt engu að síður. Þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir fjárlagafrv. í gær talaði hann um stöðugleikann og hagvöxtinn og hvernig ríkisstjórnin ætlaði að skila tekjuafgangi á fjárlögum í góðærinu. Það er ánægjulegt að ástandið skuli vera svona gott og auðvitað fagna allir því á meðan vel gengur hverju sem það er að þakka. Því miður njóta ekki allir ávaxta þessa góða efnahagsástands. Það eru því miður allt of margir sem heyra aðeins af góðærinu en finna ekki fyrir því sjálfir. Ég gladdist því þegar ég heyrði hæstv. fjmrh. síðar í máli sínu tala um að til stæði að auka þjónustu við geðfatlaða og einhverfa. Ég hefði gjarnan viljað fá svör hæstv. fjmrh. við því hvenær stendur til að bæta þjónustu við þessa hópa, reyndar þyrftu fleiri en fjmrh. að geta svarað því þar sem þessi spurning snýr bæði að hæstv. félmrh., hæstv. heilbrrh. og hæstv. menntmrh. því að geðfatlaðir og einhverfir eru vissulega ekki í góðærisklúbbi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eða hafa a.m.k. ekki verið það hingað til.

Hjá barna- og unglingageðdeildinni var nánast lokað á alla þjónustu við einhverfa í mars í fyrra. Reyndar komu peningar seinna inn á Greiningarstöð ríkisins en þeir hafa ekki farið í þjónustu við þá einstaklinga sem hafa greinst einhverfir heldur til að byggja upp þekkingu í málaflokknum.

Ef litið er til menntunar þessa hóps fatlaðra eiga þeir samkvæmt lögum rétt á menntun til 18 ára aldurs en engin úrræði hafa verið fyrir hendi fyrir þau eftir 16 ára aldur. Það er allt í ólestri og foreldrar eru nánast angistarfullir yfir ástandinu. Ég veit um dæmi þess að einhverfir unglinar hafa leitað eftir skólavist í Borgarholtsskóla og einnig í Iðnskólanum og þeir hafa ekki fengið aðgang þar. Auðvitað eiga þessi börn og þessir unglingar rétt á þjónustu samkvæmt lögum og eiga að fá hana.

Þetta hefur leitt af sér að þessi börn ganga iðjulaus um borgina sem er afleitt fyrir börn með þessa fötlun. Ég veit einnig dæmi þess að foreldrar hafa þurft að hætta störfum á vinnumarkaði til þess að sinna börnum sínum sem svona er komið fyrir.

Eins og kom fram í umræðunni á mánudagskvöldið eru engin áform um að þeir foreldrar barna yfir 16 ára, sem eru með þessa fötlun og þurfa stöðuga umönnun á heimilum og hafa engin úrræði í kerfinu, fái umönnunarbætur eða umönnunarlaun. Þess vegna kalla ég eftir því hvað stendur til að gera? Hvenær verður þjónusta við geðfatlaða og einhverfa aukin?

Við heyrum nánast af því á hverjum degi, sérstaklega í sumar, hvernig ástandið er hjá geðfötluðum og er það vissulega áhyggjuefni. Þess vegna fagna ég því ef á að taka á þeim málaflokki og kalla eftir því hvaða áform eru uppi í þeim efnum.

Hæstv. fjmrh. talaði einnig um það og gumaði af því að hafa lækkað jaðarskatta á lífeyrisþega og nefndi þar til uppbótina á lífeyri og tengingu hennar við afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Því miður virðist hæstv. fjmrh. ekki hafa fylgst alveg með eftir því sem kom fram í máli hans því að í tíð ríkisstjórnarinnar var tekjutenging aukin í almannatryggingunum og þar með jaðarskattarnir þegar uppbótin, sem var ekki tekjutengd, var tekjutengd í tíð ríkisstjórnarinnar. Síðan þegar átti að minnka jaðarskattana með því að breyta fyrirkomulaginu með Ríkisútvarpið var það gert svo óhönduglega að lífeyrisþegum er mismunað eftir því hvenær þeir fá lífeyri og hvort þeir eru í sambúð eða búa einir þannig að þetta er ekki alveg eins og það hljómaði úr munni hæstv. ráðherra.

Vegna umræðna undir þessum lið um fjárlögin hefur komið fram afstaða hæstv. fjmrh. til þess hvort lífeyrisgreiðslur eigi að tengjast lágmarkslaunum og hann hefur lýst því yfir að ekki hefði verið hægt að hækka greiðslur til þeirra eins og hann hefur gert. Ég spyr hæstv. ráðherra, hann hefur ekki svarað því enn þá í umræðunni: Hyggst hann sjá til þess að lægstu bætur muni fylgja lágmarkslaunum um áramót þegar lágmarkslaunin verða 70 þús. kr.? Munu lífeyrisþegar njóta góðs af því og verður séð til þess að tekjur þeirra verði ekki undir 70 þús. kr.?

Fyrr í umræðunni kom fram, og það kom náttúrlega berlega í ljós í upphafi umræðunnar, hverjir telja sig einnig hafa orðið afskipta og ekki hafa fengið aðgang að góðærisklúbbi ríkisstjórnarinnar. Yfir 5.000 aldraðir komu og mótmæltu þeim skerðingum sem þeir hafa orðið fyrir í tíð ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. fjmrh. gumaði af tekjuafgangi í ræðu sinni en ég leyfi mér að setja ákveðið spurningarmerki við hvort það muni verða tekjuafgangur þegar upp verður staðið því að hann fæst vegna þess að verið er að selja eignir ríkisins. Ég held því fram að jafnvel aldraðir og sjúkir lífeyrisþegar séu að greiða þennan tekjuafgang. Það er verið að sækja til þeirra, það hefur verið skerðing á kjörum þeirra og aukin þjónustugjöld til þeirra í tíð ríkisstjórnarinnar.

Fyrr í ræðunni talaði hæstv. heilbrrh. um að þjónustugjöldin hefðu aukist mest í tíð síðustu ríkisstjórnar og það er sjálfsagt rétt hjá hæstv. heilbrrh. En það er ekki afsökun fyrir því að skerðingarnar hafa aukist í tíð núv. ríkisstjórnar. Maður hefði haldið að þegar stjórnmálamenn, sem hafa gagnrýnt skerðingar á síðasta kjörtímabili og lofuðu öllu fögru í síðustu kosningabaráttu og komast nú í valdaaðstöðu og góðæri ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar, grípi til og reyni að rétta af þær skerðingar og minnka þau þjónustugjöld sem lögð voru á fyrr. Nei, það er ekki gert. Þjónustugjöldin eru aukin, skerðingarnar eru auknar og ég tel fulla ástæðu til að rifja aðeins upp hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera í kjaramálum lífeyrisþega.

Þó svo hæstv. fjmrh. hafi talað um að jaðarskattar hafi minnkað eru nú því miður hátt í 100% jaðarskattar enn þá á lífeyrisþegum. Það hefur verið slíkur hringlandaháttur sem snýr að kjörum lífeyrisþega að þeir hafa yfirleitt ekki vitað hvaða tekjur þeir hefðu frá mánuði til mánaðar og þetta hefur valdið öldruðum og lífeyrisþegum og öryrkjum mikilli vanlíðan og óöryggi.

Í tíð núv. ríkisstjórnar hefur tekjutenging lífeyris verið aukin. Grunnlífeyrir ellilífeyrisþega var m.a. tekjutengdur þannig að 30% skerðing gagnvart tekjum kom í staðinn fyrir 25% sem hafði verið áður. Þeim hlunnindum var einnig breytt sem aldraðir höfðu gagnvart þjónustugjöldum í heilbrigðiskerfinu. Nú þurfa aldraðir að greiða fullt gjald fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu og sérfræðiþjónustu og rannsóknir til sjötugs í staðinn fyrir 67 ára nema í undantekningartilvikum og við það breytast hámarksgreiðslurnar einnig úr 3.000 kr. í 12.000 kr. á almanaksárinu þangað til þeir fá afsláttarkort. Þarna er ekki verið að minnka þjónustugjöldin á þessa hópa. Nei, þau eru aukin.

Fyrr í umræðunni um var talað um að hið opinbera hygðist skera niður lyfjakostnaðinn. Hlutur lífeyrisþega í lyfjakostnaði hefur aukist. Reglum hefur verið breytt þannig að lyfjakostnaður hefur aukist hjá bæði öldruðum og öryrkjum og reglur um endurgreiðslur fyrir þá sem eru með mikinn lyfjakostnað eru einnig orðnar þannig að margur hver á ekki kost á því að fá endurgreiðslu þó þeir beri mjög mikinn lyfjakostnað vegna þess að reglurnar hafa verið þrengdar. Í blöðunum í dag eða í gær kom fram að lyfjakostnaður heimilanna hefur aldrei verið meiri. Það er á sjöunda milljarð sem heimilin bera af lyfjakostnaði í landinu og þetta er í góðærinu. Greinilegt er að þeir sem þurfa á lyfjum að halda eru ekki í góðærisklúbbi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Ég minntist áðan á að sérstaka uppbótin var tekjutengd í tíð ríkisstjórnarinnar og við það misstu um 2.000 lífeyrisþegar, sem eru umönnunarþurfi eða bera mikinn kostnað vegna heilsufars, þessa uppbót og þau hlunnindi sem fylgdu henni.

Ég ætla líka að tína það til að hlunnindi hreyfihamlaðra, styrkir til bifreiðakaupa, voru skert um nánast helming þrátt fyrir mikla þörf fyrir þá. Ég spyr hæstv. heilbrrh. sem hefur margoft lýst því yfir, sérstaklega í tíð síðustu ríkisstjórnar, að hún bæri hag þessa fólks mjög fyrir brjósti, hvort hún muni snúa vörn í sókn og snúa þessu við þannig að þetta fólk fái þau réttindi í velferðarkerfinu sem það hafði fyrir áður en hún tók við stjórninni í heilbrigðiskerfinu. Ég tel mjög mikilvægt þegar vel árar að þau réttindi sem þessir hópar hafa misst og sú kjaraskerðing sem orðið hefur í þrengingum skili sér til baka þegar vel árar.

Einnig var talað um að til stæði að skera niður í tannlækningum og hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir að það væri gert með því að búið væri að auka tölvuvæðingu og það ætti að draga úr tvíverknaði. Ég minni á að dregið hefur verið úr réttindum til þátttöku í tannlækningum í tíð ríkisstjórnarinnar. Á síðasta ári var skertur rétturinn til þeirra sem eru með gervitennur og ég spyr: Er það einasta skerðingin í tannlækningum að það eigi að draga úr tvíverknaði? Reglurnar voru orðnar þannig að það borgaði sig frekar fyrir marga að láta frekar draga úr sér allar tennur en láta gera við þær. Þannig voru reglurnar orðnar í Tryggingastofnun sem sneri að lífeyrisþegum og þátttöku í tannlækningum.

Nei, aldraðir eru greinilega ekki í góðærisklúbbnum og það var alveg réttmætt þegar þeir vöktu athygli á kjörum sínum. Samkvæmt niðurstöðum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eru lífeyrisþegar 20% þeirra sem eru undir fátæktarmörkum og samkvæmt upplýsingum frá líknarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei verið jafnmikil ásókn í fjárhagsstyrki innan lands eins og í tíð núv. ríkisstjórnar. Fólk hefur ekki aðeins þurft að leita til félagsmálastofnana heldur líka til líknarfélaga. Er þetta velferðarsamfélagið sem við búum við í góðærinu? Er það þannig sem við viljum hafa þetta? Ég segi nei og ég trúi því ekki að þetta sé fjölskyldustefna ríkisstjórnarinnar. Það er hægt að tala fallega um fjölskyldustefnu í þessum ræðustóli og svo eru framkvæmdirnar svona. Ég sætti mig ekki við þessa forgangsröðun.

Í umræðunum hefur einnig komið fram og kemur fram í fjárlagafrv. að ekki á að auka löggæslu. Við vitum öll hvernig ástandið er í miðborginni um helgar. Fólk er ekki einu sinni öruggt um líf sitt og löggæslan er í lágmarki. Það er auðvitað hluti af velferðarþjónustunni að sinna löggæslustörfum þannig að menn geti gengið um borgina án þess að óttast um líf sitt.

[20:00]

Mig langar líka til að fagna því að hagnaðurinn eða góðærið skuli vera notað til þess að fjölga hjúkrunarrýmum því að þar hefur víða verið pottur brotinn og hefur verið orsök þess að útgjöld í heilbrigðiskerfinu hafa aukist, sérstaklega í rekstri spítalanna, vegna þess að það hafa ekki verið úrræði fyrir hendi. Þetta höfum við reyndar rætt hér. Ég minni á að það eru um 400 manns sem bíða eftir vistun bara í Reykjavík og þar af eru yfir 250 manns í mjög brýnni þörf eftir vistun.

Af því biðlistarnir komu hér aðeins til tals þá hef ég líka viljað fá upplýsingar um þá hjá hæstv. heilbrrh. Hvað hyggst hún gera í sambandi við biðlistana? Það er búið að koma fram að gert hefur verið átak í bæklunaraðgerðunum, það er af hinu góða. En að sjálfsögðu er vandinn stór. Verður komið á hámarksbið eins og er í nágrannalöndunum þannig að fólk þurfi ekki í óvissu, og jafnvel með mikil útgjöld af lyfjakostnaði og öðrum kostnaði, að bíða mánuðum saman eftir aðgerðum? Auðvitað er það dýrt bæði fyrir einstaklingana og samfélagið.

Ég ætla ekki að tala um ástandið í fjármálum sjúkrahúsanna, ég sé að lítið er eftir af ræðutíma mínum, en komið hefur fram að það vantar 2,6 milljarða til sjúkrahúsanna til að endar nái saman. Bent hefur verið á hvernig ástandið er á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem ekki hafa verið settir peningar í viðhaldskostnað og byggingin er bæði lek og farin að molna. Ef menn bíða með það mikið lengur verða útgjöldin auðvitað enn meiri.

Ég mótmæli því eins og lífeyrisþegarnir gerðu hér í gær að þeir verði áfram látnir bera mestu byrðarnar. Og ég kalla eftir því að eitthvað verði gert til þess að rétta kjör þeirra, eins og þeir hafa reyndar kallað eftir sjálfir, og krefst þess að þegar góðæri ríkir í samfélaginu njóti þess ekki aðeins fáir heldur komist þjóðin öll í þennan góðærisklúbb ríkisstjórnarinnar. En því miður er ég ansi hrædd um að það þurfi breytt viðhorf og aðra stjórn á landsmálunum ef sanngjart á að verða hvernig hagnaðurinn eða ágóðinn af þessu ágæta efnahagsástandi á að skila sér til allra en ekki aðeins fárra eins og nú er.