Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:08:08 (215)

1997-10-08 20:08:08# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svaraði þessu hér áðan. Ég sagði að það stæði til að bætur hækkuðu um um það bil það sama og gerist í almennum launahækkunum og í því felst svarið. Ég vil einnig segja hv. þingmanni að á sínum tíma voru ákveðnir taxtar í samningi Dagsbrúnar við Vinnuveitendasambandið varðveittir sérstaklega til þess að hægt væri að nota þá sem viðmiðun í almannatryggingakerfinu. Það var ekki fyrr en að þessi tengsl voru rofin sem hægt var að semja við verkafólk í landinu um hærri laun og það var gert í síðustu kjarasamningum. Ef þessi tenging hefði verið áfram þá hefðu þessir taxtar verið varðveittir. Það verður að koma mjög skýrt og skilmerkilega til skila að núverandi ríkisstjórn hefur hækkað bætur meira en áður tíðkaðist vegna þess að bæturnar hækka meira en almennu launahækkuninni nemur. Og þegar menn eru að tala um lægstu laun þá verða þeir að hafa það í huga að það voru örfáir einstaklingar, örstuttan tíma ævinnar, á svokölluðum lægstu launum og þess vegna er erfitt um allan samanburð.

En það sem vekur athygli hér og nú er að hv. þm., sem gefur sig út fyrir að þekkja þetta kerfi best allra þingmanna, talar um það sýknt og heilagt að búið sé að skerða og skerða. Það er einföld spurning: Vill hv. þm. hafa skerðingar þannig að almannatryggingabætur verði skertar til fólks með lífeyristekjur, fólks með atvinnutekjur, fólks með fjármagnstekjur, og þá hve mikið? Eða er það eitt sem þessi hv. þm. hefur til málanna að leggja að sífellt skuli koma meiri og meiri bætur? En það er greinilega rauði þráðurinn í öllum ræðum hv. þingmanns að það megi ekki skerða, það verði að hækka bætur og hækka bætur. Hv. þm. hefur hins vegar lítið sagt frá því hvernig hún vildi hafa þetta kerfi og hvað það mundi kosta ef hún réði.