Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:10:30 (216)

1997-10-08 20:10:30# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér gefst ekki tími til þess að fara út í það hvernig ég teldi að almannatryggingakerfið ætti að virka. Aftur á móti ætti ég að eiga þess kost vegna þess að ég sit í nefnd sem ætti að vera að endurskoða almannatryggingalögin. En því miður er frammistaða þessarar ríkisstjórnar ekki meiri en svo að nefndin hefur ekki verið kölluð saman í næstum því ár. (Gripið fram í: Hvað eru margir í nefndinni?) Ég vil nefna það að að sjálfsögðu er eðlilegt að það séu ákveðin mörk á því hverjir fái út úr almannatryggingakerfinu og það séu ákveðin skerðingarákvæði. En það er lágmark, hæstv. fjmrh., að lægstu greiðslur úr velferðarkerfinu séu a.m.k. nægar til framfærslu en þær eru það því miður ekki. Það er fjöldi fólks sem nær ekki endum saman og er að safna skuldum bara til þess að hafa ofan í sig og á. Og því miður er það svo að til manns kemur fólk, lífeyrisþegar, sem segist vera svangt.