Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:11:50 (217)

1997-10-08 20:11:50# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:11]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir mjög góðan málflutning, fyrir að taka upp málstað lífeyrisþega og öryrkja, ekki veitir af gagnvart þeirri ríkisstjórn sem nú hefur setið og hefur notað hvert einasta tækifæri sem gefist hefur til að reyna að skerða kjör þessara hópa. Það er hins vegar fyrir tilverknað stjórnarandstöðunnar, fyrir tilverknað verkalýðshreyfingarinnar, að hún hefur ekki komist alla þá leið sem hún hefur viljað fara í því efni.

Í þessari umræðu um fjárlögin hér á Alþingi í dag hefur heldur betur fallið á þá glansmynd sem hæstv. fjmrh. dró upp í upphafi. Fram hafa komið mjög athyglisverðar upplýsingar frá hendi stjórnarandstöðunnar, sitt hvað sem við bíðum eftir að fá nánari skýringar á frá hæstv. ráðherrum. Það er mjög alvarlegt þegar hæstv. formaður heilbr.- og trn. heldur því fram að þrátt fyrir fögur orð í fjárlagafrv. þá vanti á annan milljarð króna til þess að Sjúkrahús Reykjavíkur geti sinnt þeirri lágmarksþjónustu sem því sjúkrahúsi er ætlað að sinna. Þetta er mjög alvarlegt í ljósi þess hver þróunin hefur verið á undangengnum árum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun hefur framlag ríkissjóðs til sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi dregist saman um 2,03% á síðustu tíu árum, úr tæpum 13 milljörðum, 12.949 milljónum, árið 1988 í 12.686 milljónir árið 1997. Þetta gerist á sama tíma og fjöldi íbúa á þessu svæði vex um 14,5%, úr 156.887 í 179.628. Þetta eru athyglisverðar tölur sem er vert að gaumgæfa. En þetta voru upplýsingar og þetta var málflutningur og rökstuðningur af hálfu formanns heilbr.- og trn., hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, fyrr í dag sem nauðsynlegt er að ráðherrarnir báðir, hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. fari nánar í saumana á.

[20:15]

Það er sitthvað annað sem hefur verið tínt hér til í fjárlagaumræðunni um skerðingar af ýmsum toga, stórar og smáar. Þá sjaldan sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa látið svo lítið að taka þátt í þessari umræðu hafa menn hins vegar keppst við að hrósa hver öðrum í hástert. Hér í þingsal í dag var haft á orði að það væri engu líkara en menn væru staddir í stórafmæli hæstv. fjmrh., svo mikið var hrósið á tímabili. (Gripið fram í.) Það var fyrr í dag. Við sem vorum við umræðuna í dag heyrðum stjórnarliða mæra foringja sinn í fjármálalegum efnum (Gripið fram í.) og sumir stjórnarandstæðingar fóru reyndar lofsamlegum orðum um hæstv. fjmrh. og fjármálastjórn hans og vil ég þar nefna hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem er góðviljaður maður og fór lofsamlegum orðum um fjárlögin. Ég get hins vegar ekki hrósað þessum fjárlögum og ég get ekki hrósað fjármálastjórn hæstv. ráðherra Friðiks Sophussonar. Að sönnu er það svo að fjárlögin eru hallalaus. En eins og bent hefur verið á er ástæðnanna að leita utan ríkisstjórnarinnar. Það er góðæri í landinu, góðæri sem hefur veitt mikla fjármuni inn í samneysluna og svo er á hitt að líta að ríkið hefur ákveðið að selja eignir sínar. Nú kann það að vera í góðu lagi að selja sumar eignir. Hins vegar er full ástæða fyrir þingmenn og fyrir landslýð að vantreysta þessari ríkisstjórn þegar hún heldur upp að búðarborðinu. Og þar hræða dæmin. Við munum öll eftir hneykslinu með SR-mjöl þar sem að stórefnamönnum þessa lands voru færðir miklir fjármunir úr almannasjóðum og það er hægt að tína smærri dæmi, smá en stór þegar þau eru komin á hinn siðferðilega kvarða. Ég minni t.d. á í því efni að þegar framleiðsludeild ÁTVR var seld á sínum tíma fyrir um 17 millj. kr. þá var það minna verð en fjárhagslegur ávinningur ÁTVR af þessari framleiðslu á einu ári. Gjafir eru yður gefnar. Því er full ástæða fyrir menn að fylgjast rækilega með þegar hæstv. fjmrh. heldur upp að búðarborðinu og ætlar að selja eignir þjóðarinnar.

Það eru hins vegar ekki aðeins stjórnarandstæðingar sem eru óánægðir með ríkisstjórnina, fjármálastjórnina og áherslur ríkisstjórnarinnar í landsmálum. Þannig hefur t.d. komið mjög hörð gagnrýni frá framsóknarmönnum, ungum framsóknarmönnum, á áherslu ríkisstjórnarinnar í menntamálum. Formaður Sambands ungra framsóknarmanna, Árni Gunnarsson, sem jafnframt er aðstoðarmaður hæstv. félmrh., ef ég fer rétt með, sagði í viðtali við ríkissjónvarpið fyrir fáeinum dögum eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við höfum áhyggjur af því að ekki sé tryggt jafnrétti til náms án tillits til efnahags og búsetu. Þetta er alveg grundvallaratriði, að hver og einn fái tækifæri til þess að nýta sér hæfileika sína.``

Og síðan hefur fréttamaður ríkissjónvarpsins eftir Árna að ríkisstjórnin hafi lofað aðgerðum til þess að jafna námskostnað en þar hafi ekki farið saman orð og efndir.

Það sem ég vil gera að umtalsefni í fáeinum orðum er pólitíkin í fjárlagafrv. Ég mun reyndar víkja að því aftur síðar. Í rauninni má segja að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson standi sig vel fyrir sinn málstað. Honum er að takast að undirbúa stórfellda markaðs- og einkavæðingu á öllum sviðum velferðarþjónustunnar. Honum er að takast að gera þetta. Ég hef t.d. ekki trú á því að hæstv. heilbrrh. hafi pólitískan áhuga á því að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Ég tel svo ekki vera. Ég tel hins vegar að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé verið að svelta velferðarþjónustuna og þar með heilbrigðisþjónustuna og þröngva henni til einkavæðingar. Og það er hér sem kemur að hlut hæstv. fjmrh. og fjármálastjórninni. Mér finnst það vera umhugsunarefni sem segir í fjárlagafrv. um Sjúkrahús Reykjavíkur svo dæmi sé tekið og vildi ég nú gjarnan hafa fjárlagafrv. hér við höndina. Þar segir t.d. á bls. 379, og er þar verið að tala um niðurskurð til Sjúkrahúss Reykjavíkur, orðrétt, með leyfi forseta:

,,Með umræddu samkomulagi er litið svo á að það sé alfarið á ábyrgð eigenda og stjórnenda sjúkrahúsanna að tryggja að þau verði rekin innan marka áætlana.``

Gott og vel. Það sem fjárveitingavaldið er að gera er að fyrra sig allri pólitískri ábyrgð gagnvart sjúklingum. Niðurskurðurinn, hagræðingin sem menn vilja síðan kalla hann, verður á ábyrgð hinnar einstöku markaðseiningar. Þetta er hugmyndafræðin sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson er að innleiða alls staðar á öllum sviðum samfélagsþjónustunnar. Og honum tekst þetta mjög vel. Honum tekst þetta afar vel. Hæstv. fjmrh. veit nákvæmlega hvert hann heldur. Ég er ekki alveg viss um að allir framsóknarmenn geri sér grein fyrir hvert þessi leið liggur og til hvers hún leiðir. Sumir gera það þó og hér talaði í gær einn ákafasti einkavæðingarsinninn, sem vill reyndar ganga lengra í þeim efnum, í röðum stjórnarliðsins. Það var hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson. Hann vitnaði í Hagskinnu og sagði eitthvað á þá leið að væru borin saman árin 1980--1990 þá kæmi fram að heildarvinnuaflsnotkun hefði aukist um 18,2% í heildina en hið opinbera hafi á sama tíma tekið til sín 37% aukingu í vinnuaflsþörf. ,,Ef skoðað er síðan tímabilið frá 1963--1990,`` sagði hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, ,,kemur enn þá sorglegri mynd fram því að þar kemur í ljós að hlutfallsleg skipting vinnuaflsnotkunar er þannig að fyrirtækin hafa lækkað úr tæpum 90% í 77%, en hjá hinu opinbera hefur vinnuaflsnotkun aukist úr 9,5% í 18,2% ...`` Þetta var að mati hv. þm. of mikil aukning hjá lítilli þjóð sem ætti fullt í fangi með að standa undir þeirri yfirbyggingu sem nauðsynleg er í þjóðfélaginu. Á þessa leið mæltist hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni. Það er greinilegt að hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson þekkir ekki mikið til íslenskrar hagsögu. Hver skyldi vera skýringin á þessu sem hann kallar ,,sorglegt ferli``? Eða vita menn ekki að hagvöxtur eftirstríðsáranna verður að verulegu leyti skýrður með aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Ef hann hefði lesið Hagskinnu betur þá hefði hann komist að raun um það að atvinnuþátttaka kvenna jókst úr 34% 1960 í 74% 1990. Og ekki nóg með það, atvinnuþátttaka giftra kenna jókst úr 19% í 78%. Þetta er fyrst og fremst skýringin á breyttri samsetningu vinnuaflsins á Íslandi. Það sem hefur gerst er að störf sem áður voru unnin inni á heimilum hafa færst út í hinar ýmsu stofnanir velferðarsamfélagsins. Þingmaðurinn hélt reyndar áfram og fjallaði meira um hlut samneyslunnar á Íslandi sem hann sagði vera 21% af landsframleiðslu, langt umfram OECD meðaltalið þar sem samneyslan væri 16% að meðaltali þar og aukning samneyslunnar eins og henni er spáð núna væri langt umfram það sem væri spáð víða annars staðar. Staðreyndin er sú að það er rétt að samneyslan er að meðaltali tæp 16% hjá OECD, reyndar 15,7%. Við erum samkvæmt nýjustu gögnum með 20,7%, svipað og Noregur, talsvert undir Svíþjóð sem er með 25,8% og Danmörk 25,1% og síðan eru fyrir ofan okkur Finnland og Bretland. En ríkin sem draga meðaltal OECD niður eru ríki á borð við Grikkland og Japan sem er með 9,7% samneyslu eða hlutfall samneyslunnar er 9,7% af vergri landsframleiðslu. Og hver skyldi skýringin vera á því? Skýringin á því er talin vera sú að atvinnuþátttaka kvenna í Japan er allt önnur og miklu minni en gerist hér. Þetta eru hlutir sem menn verða að sjálfsögðu að skoða og setja inn í sitt rétta samhengi ef þeir ætla að fá eitthvert vit í þessar umræður.

Hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson sagði reyndar enn fremur að hann væri ekki að gagnrýna framlag til eiginlegra velferðarmála, til eiginlegrar velferðarþjónustu. Það væri ekki vandamálið. Vandamálið væri, sagði hann: ,,sú fita sem alls staðar hvílir utan á þessari yfirbyggingu okkar.`` Hvað er hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson að tala um hér? Ég get tekið undir með honum að sitthvað sem gerist hjá hinu opinbera er mér ekki að skapi og þar er að finna bruðl af ýmsu tagi, sums staðar í launamálum, hjá þeim sem hafa lifað í skjóli Kjaradóms t.d. Til dæmis fjármunir sem hafa runnið til allra einkavæðingarnefndanna sem hæstv. fjmrh. hefur sett á laggirnar og hafa tekið til sín milljónir króna. Það er alveg rétt, það er bruðl á ýmsum sviðum. En stóru fjármunirnir, það sem verulega skiptir máli, er hins vegar það fjármagn sem rennur til menntamála og þá ekki síður til heilbrigðismála sem er drjúgur hluti af fjárlögum íslenska ríkisins. Hins vegar er það rétt að þegar farið er að skoða pólitíkina í fjárlagafrv., þá er það einmitt á þeim sviðum sem maður mundi nú helst tengja fitu, þar sem útgjaldaauking verður, t.d. til utanríkisþjónustunnar Þar er framlagið aukið að raungildi um 227 millj. kr.

Það hefur verið gagnrýnt í umræðu á þingi, hvað svo sem mönnum sýnist um einstakar ráðstafanir á borð við að setja niður sendiráð hér eða sendiráð þar, að þessir hlutir skuli ekkert vera ræddir í þinginu áður en ákvarðanir eru teknar. Þetta hefur verið gagnrýnt af hálfu stjórnarandstöðunnar í fjárln., að ýmislegt sem er að koma ... (KHG: Varaformanns fjárln. líka.) Og af hálfu varaformanns fjárln. líka. Hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir þessi vinnubrögð. Ég veit ekki hvort hann á eftir að gagnrýna það líka þegar hæstv. utanrrh. mun halda utan, sennilega með marga flugvélafarma af háembættismönnum og öðrum slíkum, í mikla reisu til Asíu á komandi vikum eða mánuðum. Ég skal taka undir þá gagnrýni að þegar farið er að skoða áherslur ríkisstjórnarinnar og hvar gæluverkefni hennar eru að þá eru vinnubrögðin mjög gagnrýniverð. Kannski er athyglisverðast af öllu hvernig hún tekur sjálf saman í hnotskurn þankagang sinn og pólitík þegar hún birtir hér, sennilega til að auka kostnaðarvitund okkar þegnanna og skattborgaranna, hvað það kostar samfélagið að styðja við bakið á fötluðum einstaklingi. Hér segir að rekstrarkostnaður á hvern íbúa á ári fyrir fatlaðan einstakling og svo er tilgreind upphæð --- rekstrarkostnaður. Þetta er fullkomið hneyksli. En við erum ekki einvörðungu að ræða um krónur og aura. Hér erum við að ræða um pólitík og hér erum við að ræða um siðferði í pólitík og þar fær ríkisstjórn hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, falleinkunn.