Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:32:35 (218)

1997-10-08 20:32:35# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þar sem við erum í sókn í heilbrigðismálum skulum fara fyrst yfir heilsugæsluna. Stefnumótun var samþykkt í heilsugæslunni síðasta sumar og í 21 lið var samþykkt að stefna að bættum gæðum heilsugæslunnar. Við höfum náð lengra en nokkur þorði að vona á þeim tíma þegar við skrifuðum undir þetta samkomulag.

Ég ætla aðeins að fara yfir árangurinn í Reykjavík og Reykjanessvæðinu en í umræðunni í fyrra við fjárlög var einmitt talað sérstaklega um það hversu aðgengi að heilsugæslu væri erfitt á þessu svæði. Um áramót munum við opna nýja heilsugæslustöð í Mosfellsbæ. Við erum búin að bjóða út nýja heilsugæslustöð í Fossvogi. Í Garðabæ flytjum við í nýja heilsugæslustöð í þessum mánuði. Í Hafnarfirði er búið að bæta húsnæði heilsugæslunnar og væntanlega vígjum við það í kringum áramót. Í Keflavík er verið að byggja upp heilsugæslu og í Kópavogi er verið að byggja yfir heilsugæsluna og þar munum við byrja að nýta húsnæði um mitt næsta ár.

Þetta eru nokkur stór atriði sem ég held að vert sé að minnast á í umræðunni. Auðvitað viðurkenni ég að það hefur hamlað þróun í heilsugæslunni að við höfum verið að bíða eftir úrskurði kjaranefndar um laun heilsugæslulækna en við höfum náð markmiðum bæði í gæðastýringu og ýmsum breytingum innan heilsugæslunnar sem mikil sátt er um. Ef við tökum sjúkrahúsin skulum við fyrst taka sjúkrahúsin úti á landi. Á Akureyri er mikil uppbygging og við munum opna barnadeild um áramótin 1998--1999 á Akureyri. Á Akranesi hefur öldrunarþjónusta innan sjúkrahússins verið bætt. Á Blönduósi verður vígð ný deild fyrir aldraða eftir hálfan mánuð. Þetta er í hnotskurn það sem er að gerast um þessar mundir úti á landi. Ef við tökum sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu hefjum við uppbyggingu barnaspítala á næsta ári. Við erum að opna nýja líknardeild, við erum að opna lýtalækningadeild sem hefur verið lokuð um langt skeið. Búið er að byggja upp gjörgæsludeild á Landspítala og skurðstofur og við erum að byrja að byggja upp skurðstofurnar og gjörgæsluna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Innan tíðar opnum við nýja hjartarannsóknadeild á Landspítala.

Ég ætla að fara yfir það sem er að gerast í öldrunarmálum á Reykjavíkursvæðinu. Það er rétt sem hefur komið fram oftar en einu sinni hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að hjúkrunarrými vantar á Reykjavíkursvæðinu. Verulegir fjármunir eru lagðir í fjárlagafrv. til uppbyggingar. Ég nefni Skógabæ, Vífilsstaði, Víðines og uppbygginguna á Landakoti. Þetta eru bara nokkur dæmi sem mér finnst rétt að minnast á við umræðuna.

Tökum forvarnirnar. Búið er að leggja margfalt meira fjármagn til forvarna á síðustu tveimur árum en menn hafa séð undanfarin ár og á morgun verður kynnt sérstakt fræðsluverkefni í tóbaksvörnum sem við tökum upp og Norðmenn hafa tekið upp með mjög góðum árangri. Við leggjum þrefalt meira fé til tóbaksvarna en við gerðum árið á undan. Sama má nefna í áfengis- og vímuefnavörnum. Er þetta ekki einhver árangur? Er þetta engin sókn? Ætla menn sífellt að tala sig niður í það að við séum á síðasta snúningi með alla hluti?

Ég ætla aðeins að koma inn á nokkrar spurningar sem hafa verið lagðar fram. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði: Hvað ætlar ráðherra að gera varðandi biðlista? Hvað hefur verið að gerast varðandi biðlistana? Við skulum aðeins rifja það upp. Keflavík, Akranes, Selfoss, Akureyri, St. Jósefsspítali hafa allir tekið á með sjúkrahúsunum á Reykjavíkursvæðinu varðandi biðlistana og þar hefur náðst verulegur árangur. Ég rifjaði áðan upp það sem við ræddum sérstaklega fyrir hálfu ári --- biðlistana eftir bæklunaraðgerðum. Þar höfum við náð geysilegum árangri. Með nýju hjartarannsóknaraðstöðunni verðum við í jafnvægi ef svo má segja varðandi hjartaaðgerðir. (ÁRJ: Hversu margir eru á biðlista núna?) Það eru miklu færri á biðlistum nú en voru fyrir hálfu ári. Við munum aldrei hreinsa biðlistana alveg. En ég nefni sem dæmi að við biðum eftir því að geta gert verulegt átak í hryggaðgerðum sem er afar sársaukafullur sjúkdómur og mikilvægt að sjúklingar þurfi ekki að bíða lengi eftir slíkri aðgerð. Við erum komin með biðlistana í ásættanlegt horf. Er þetta ekki neinn árangur? Má ekkert um þetta ræða?

Hv. síðasti ræðumaður, Ögmundur Jónasson, kom inn á það að allt væri í bullandi einkavæðingu í heilbrigðismálum. Er það rétt? Er einhvern aukin einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni? Og væri það rétt væri það þá slæmt? Það sem er aðalatriði er að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni, (ÖS: Og geti borgað fyrir það.) það er númer eitt. Alveg hárrétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni --- og geti borgað fyrir það. Þá er ég ekki að tala um úr eigin vasa heldur að almannatryggingakerfið sjái um sína jafnt. Það er aðalatriðið. (Gripið fram í.) Ég er ekki að hverfa frá því (Gripið fram í: Víst.) og hv. þm. má ekki missa móðinn eða þolinmæðina þó svo að sérfræðingar hafi farið í tímabundnar kjaradeilur. Það er málefni sem við hljótum að leysa. Það höfum við séð áður (Gripið fram í: Hvenær á að byrja á því?) og hv. þm. Svavar Gestsson sem talaði áðan þekkir kjaradeilur við sérfræðinga. Ég býst við því að hann hafi lent í þeirri lengstu kjaradeilu sem heilbrrh. hefur átt í við sérfræðinga árið 1988. Málið er því ekkert nýtt og þetta er eins og sagan endalausa að það mun endurtaka sig. Við þekkjum kjaradeilurnar í menntamálunum og þetta er málefni sem þarf að leysa.

Virðulegu þingmenn. Ég held að það sé hollt þegar menn leggjast í það að sjá ekkert nema svart að minna aðeins á það sem er að gerast í kringum okkur og loka ekki augunum fyrir því.