Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:41:56 (219)

1997-10-08 20:41:56# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gæti vel talað í stundarfjórðung um þetta málefni. Ég ætla aðeins að leiðrétta hæstv. ráðherra. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég teldi að hæstv. ráðherra hefði engan sérsakan áhuga á því að einkavæða heilbrigðisþjónustuna en ríkisstjórnin fylgir hins vegar stefnu sem leiðir til þeirrar niðurstöðu, bæði með markvissri sveltistefnu gagnvart velferðarþjónustunni en einnig með beinum aðgerðum og í fjárlagafrv. er eins og ég skírskotaði til í ræðu minni talað um aukin útboð. Það er talað um aukin útboð innan velferðarþjónustunnar. En ég ætla að endurskoða ummæli mín um að hæstv. ráðherra hafi ekki áhuga á einkavæðingu í ljósi þess sem síðast var sagt af hennar hálfu. Hún sagði: (Forseti hringir.) Er það svo slæmt að við markaðsvæðum velferðarþjónustuna og heilbrigðisþjónustuna? Það er alls ekki svo slæmt. Á þessa leið mæltist hæstv. heilbrrh. þannig að ég ætla að endurskoða fyrri ummæli mín um pólitíska afstöðu hennar, því miður verð ég að gera það.