Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:54:59 (229)

1997-10-08 20:54:59# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:54]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo langt frá því að ég sé með útúrsnúninga. Það hefði verið gott ef hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefði verið við umræðuna í dag því þá hefði hún fengið svör við öllum þeim spurningum sem hún er að spyrja um. (Gripið fram í.) Það er ekki er hægt að endurtaka sig í sífellu. Af því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr sérstaklega um tannlækningar þá fór ég yfir það fyrr í kvöld. Með aukinni tölvuvæðingu í Tryggingastofnun ríkisins er hægt að auka eftirlitið. Það er mat þeirra sem þar vinna að með auknu eftirliti getum við lækkað kostnaðinn. Ég trúi ekki að hv. þm. sé á móti því.

Varðandi spurninguna um 2,6 milljarðana væri hægt að spyrja svona í öllum málaflokkum. Það væri hægt að spyrja: Þarf 2,6 milljarða í menntamálin? Auðvitað væri hægt að svara því játandi alls staðar vegna þess að það væru not fyrir þessa peninga. En ég tel að með þeim hækkunum sem boðaðar eru í fjárlagafrv. séum við að stíga stórt skref fram á við.