Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:56:21 (230)

1997-10-08 20:56:21# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Framkoma hæstv. ráðherra stappar nærri hneyksli. Þegar formaður heilbr.- og trn. flutti ræðu fyrr í dag varpaði hann til hennar mörgum ítarlegum spurningum. Hæstv. ráðherra reyndi að svara nokkrum í andsvörum en sagði síðan þegar hún var innt eftir þeim spurningum sem helstar voru að hún mundi svara þeim síðar í ræðu í dag. Hún hefur haldið eina ræðu sem stóð í tólf mínútur. Hún nýtti ekki tíma sinn og vék ekki einu orði að ræðu formanns heilbr.- og trn. Annaðhvort þekkir hæstv. ráðherra ekki málaflokkinn og getur þess vegna ekki tekið þátt í efnislegri umræðu um hann eins og mig er farið að gruna eða hún treystir sér ekki til þess. Ég ætla aðeins að ítreka eina spurningu. Ég færði rök fyrir því fyrr í dag í ítarlegu máli, herra forseti, að það vantaði a.m.k. 980 millj. en að öllum líkindum hátt á annan milljarð til að endar næðu saman í rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ég notaði þetta sem dæmi um að glansmyndin, sem dregin er upp í heilbrigðiskaflanum, stæðist ekki. Nú spyr ég aftur hæstv. heilbrrh.: Getur hún hrakið þetta? Er þetta rétt eða rangt? Telur hún kannski að ekkert vanti upp á rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur?