Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:08:26 (236)

1997-10-08 21:08:26# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:08]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að marki en ég vil koma að örfáum atriðum, m.a. þeim sem beint hefur verið til mín beint og óbeint í þessari umræðu. Þó að fjáraukalög séu ekki á dagskrá, hefur verið rætt um samskipti þings og ríkisstjórnar varðandi aukafjárveitingar og uppsetningu fjáraukalaga.

Við samþykktum á síðasta vori löggjöf um fjárreiður ríkisins og ég vil vegna þeirra umræðna sem hafa farið hér fram um aukafjárveitingar rifja upp hvernig sú löggjöf gerir ráð fyrir að sé tekið á þeim málum. Það er tekið á því í 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.``

Þetta er alveg skýr lagagrein og við fjárlaganefndarmenn, bæði formaður og varaformaður, höfum rætt það við fjmrn. hvernig þessi formlegu samskipti eru og við þurfum að þróa framkvæmd þessara laga og koma þeim í gildi í okkar samskiptum. Hér er einnig kveðið á um hvernig skuli fara með kjarasamninga ef þeir eru gerðir og ekki er heimild fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum. Það er kveðið á um það í 34. gr. að það skuli leita heimildar Alþingis til slíkra útgjalda með frv. til fjáraukalaga, en launagreiðslum skuli þó hagað í samræmi við hina nýju kjarasamninga þegar þeir eru gerðir. Þetta eru skýr ákvæði sem vissulega þarf að fylgja eftir.

Hér hefur einnig verið rætt um samskipti þings og ríkisstjórnar. Það var hv. 9. þm. Reykn. sem kom inn á þau mál. Tekið er á þeim málum í þessum lögum. Þar er gert ráð fyrir því að fjárlagatillögur Alþingis séu afhentar forsrn. og um það segir svo í nefndaráliti sérnefndar sem fjallaði um lagafrv. um fjárreiður ríkissjóðs, með leyfi forseta:

,,Til samræmis við ákvæði þingskapa er hér lagt til að forsætisnefnd geri tillögu um fjárveitingar til Alþingis og stofnana þess og sendi þær forsætisráðherra sem skv. 4. tölul. 2. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands annast af hálfu framkvæmdarvaldsins samskipti við Alþingi. Er þá gert ráð fyrir að forsætisráðherra framsendi tillögurnar fjármálaráðherra sem tekur þær upp í fjárlagafrumvarpið. Ljóst er að forsætisnefnd starfar í umboði Alþingis, eða meiri hluta þess, og því er ólíklegt að tillögur hennar séu í ósamræmi við þá efnahagsstefnu sem hlutaðeigandi ríkisstjórn hefur boðað. Til að taka af allan vafa um þetta er, sbr. tilvísun nýrrar 4. mgr. í 2. mgr. greinarinnar, gert ráð fyrir að forsætisnefnd skuli við gerð fjárlagatillagnanna hafa hliðsjón af þjóðhagsáætlun.``

Það með öðrum orðum gert ráð fyrir því að forsætisnefnd taki við af efnahagsstefnunni á hverjum tíma, en að öðru leyti annist forsætisráðuneytið að koma tillögum forsætisnefndar á framfæri.

Ég vildi rifja þetta upp vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. En þetta var rætt ítarlega í þeirri sérnefnd sem fjallaði um lögin um fjárreiður ríkisins og þetta varð niðurstaðan af þeirri umræðu. (Gripið fram í: Það er fram hjá fjmrh.) Við verðum að sjálfsögðu að fylgja því eftir að lög um fjárreiður ríkisins taki gildi í raun og móta okkar starfshætti hjá framkvæmdarvaldi og Alþingi í samræmi við þá stefnumörkun sem var rædd hér mjög ítarlega og samþykkt í vor.

[21:15]

Hér hafa verið langar og ítarlegar umræður um fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Ég ætla í sjálfu sér ekki að lengja þær mikið, heldur víkja að örfáum atriðum í viðbót við mína fyrri ræðu í málinu. Það hafa komið fram fjölmargar ábendingar og áhersluatriði í þessari umræðu. Hlutverk fjárln. er að meta þær forsendur sem liggja til grundvallar þeim tölum sem settar eru fram í fjárlagafrv. og þeim markmiðum sem sett eru fram. Það mun að sjálfsögðu verða gert. Hér hefur verið lögð mikil áhersla á ný útgjöld og það er ljóst að ef tekið yrði tillit til þess alls, þá yrðu fjárlög ekki hallalaus. Vandinn er að forgangsraða og vandinn er að gæta hagsmuna þeirra sem lakast eru settir í þjóðfélaginu. Ég held að um það sé nokkuð víðtæk pólitísk samstaða þó að menn greini að sjálfsögðu á um leiðir og menn greini á um hve langt á að ganga og hve langt er hægt að ganga miðað við þau markmið sem sett eru.

Ég endurtek það sem ég sagði í minni fyrri ræðu að það að ná almennum árangri í efnahagsmálum er auðvitað þeim verr settu í þjóðfélaginu í hag eins og hinum, það er vissulega svo.

Hv. 17. þm. Reykv. vék örlítið að því og það hefur reyndar komið fram víðar að utanríkisþjónustan hafi þanist æðimikið út á síðasta ári og nú um þessar mundir séu áform um að þenja hana enn þá meira út. Það var minnst á stórar sendinefndir til Asíu og víðar. Það er kannski örlítill misskilningur í þessu fólginn. Utanríkisþjónustan hefur verið að breyta stefnumörkun sinni, tengjast meira viðskiptum og markaðssókn á erlendum markaði og í þeim sendinefndum sem hafa farið með utanrrh. í heimsóknir til hinna fjarlægari heimshluta eru yfirleitt kaupsýslumenn en ekki embættismenn á vegum utanrrn. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og er talið skila miklum árangri fyrir íslenskan útflutning og íslenskan þjóð. Það hafa stórir kostnaðarliðir fallið á utanrrn., t.d. vegna flutnings sendiráðs til Berlínar sem kostar stórfé á næsta ári, yfir 100 millj. kr. og það er verkefni sem við tökum þátt í samkvæmt samningum vegna þessara breytinga. Einnig er jákvætt í þessum hækkunum að Þróunarmál og Alþjóðleg hjálparstarfsemi hækkar umfram almennar hækkanir í frv. eða um 41 millj. kr. og er hluti af þessum 200 millj. Ég vildi geta þessa af því að þetta hefur ekki komið fram í umræðunni en það hefur verið rætt um hækkanir í utanríkisþjónustunni.

Ég endurtek það að ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að það verði farið sem best yfir þetta mál og vil aðeins að lokum geta þess að í fyrramálið hefur verið boðaður fundur formanna fastanefnda þar sem rætt verður um vinnubrögð í sambandi við frv. Hugmyndir eru uppi um að fela fagnefndum aukin verkefni varðandi skiptingu fjármuna í frv. en það verður rætt fyrir tilstilli forustu þingsins á morgun.