Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:19:53 (237)

1997-10-08 21:19:53# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:19]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárln. fyrir það sem hann sagði hér síðast varðandi vinnubrögðin við fjárlagafrv. En ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í andsvari var eiginlega aðallega sú að hann ítrekaði það sjónarmið sem Alþingi hafði samþykkt samhljóða í fyrra, að það ætti ekki að efna til aukafjárveitinga úr ríkissjóði nema brýna nauðsyn beri til. Ég skildi hann þannig að hann hefði verið í máli sínu að taka undir þá gagnrýni sem fram kom í gær hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, að hann væri að taka undir þau sjónarmið að því er varðar opnun sendiráðsskrifstofu í Finnlandi og líka í tengslum við þátttöku í tiltekinni sýningu og einnig vegna endurbóta á Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Og mér finnst það mjög mikilvægt að formaður fjárln. Alþingis taki undir þessi sjónarmið því að hann er úrslitaaðili í því að framkvæma lögin um fjárreiður ríkisins. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að undirstrika það alveg skýrt að ég skil hann svo að hann hafi verið að taka undir orð varaformanns fjárln. hér í gær.

Hitt atriðið sem mér fannst mjög mikilvægt að hann nefndi var um fjárreiður Alþingis og hvernig með þær er farið. Það er bersýnilega verið í fjárlagafrv. eins og það er núna, að brjóta gegn anda fjárreiðulaganna ef ekki beinlínis ákvæði þeirra. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá það upplýst hjá hv. formanni fjárln. hvernig hann getur hugsað sér að best verði að þessu staðið þannig að fjmrn. sé ljóst hvaða lög eru í gildi í landinu um fjárreiður Alþingis því að það er greinilegt að fjmrn. er eins og staðan er núna að efna til ófriðar við Alþingi í þessum málum og það verður að binda endi á þá þróun áður en hún stefnir í verulegt óefni í samskiptum þingsins og framkvæmdarvaldsins.