Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:25:39 (240)

1997-10-08 21:25:39# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði í ræðu sinni að næðu menn almennum markmiðum í efnahagsstjórninni og okkur gengi vel sem samfélagi, þá gagnaðist það ekki síður hinum efnaminni en hinum efnameiri, ef ég skildi hann rétt. Þetta er ekki sjálfgefið. Þetta er allt undir hagstjórninni komið og þeim áherslum sem stjórnvöld hafa uppi. Eða hver skyldi vera skýringin á því að á sama tíma og ríkið er að auka útgjöld til utanrrn. um fjórðung úr milljarði að raungildi, þá fyllist Austurvöllur af ellilífeyrisþegum og öryrkjum? Ég er ekki viss um að þeir séu á sama máli og hv. þm. Jón Kristjánsson og reyndar leyfi ég mér að efast um gildi allra þessara sendiferða til fjarlægra landa. Ég leyfi mér að efast stórlega um gildi þeirra.