Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 22:09:40 (250)

1997-10-08 22:09:40# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[22:09]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. skuli ekki samþykkja það sem hefur verið samþykkt um færslu á þessum hlutum. Þetta er í raun og veru ekki flókið. Þetta snýst um það hvað á að færast í gegnum rekstrarreikning á hverju ári. Niðurstaðan varð sú að það sem ætti að færast um rekstrarreikning hvers árs væru gjöld vegna þess árs, raunvöxturinn. En þegar um væri að ræða uppfærslur vegna verðbóta eða launa, eins og t.d. er á heildarstokknum, þá ætti það að færast um endurmatsreikning og þaðan síðan beint yfir á efnahagsreikninginn. Af hverju er farið svona að? Vegna þess að við getum ekki notað sömu reglu og er notuð hjá fyrirtækjunum, en hún er sú að þar er fært, ef við tökum skuld sem ber vexti og verðbætur, þá færast vextirnir og verðbæturnar til gjalda, síðan eru verðbæturnar færðar í gegnum reksturinn. Þannig að í raun og veru stendur nettó eftir í rekstrarreikningi fyrirtækjanna einungis raunvöxturinn en ekki uppfærsla. Af hverju er þetta hægt í fyrirtækjum en ekki hjá ríkinu? Það er vegna þess að það er tiltölulega gott jafnvægi hjá fyrirtækjum milli eigna og skulda af því að allar eignir fyrirtækjanna eru taldar upp í efnahagsreikningnum og skuldirnar jafnframt. Hjá ríkinu er það ekki hægt vegna þess að stærsti hlutur eignanna er ekki færður upp í efnahagsreikningi og skuldirnar eru þess vegna miklu hærri heldur en eignirnar. Þess vegna er sú leið farin til að líkja sem mest eftir því sem gerist á almenna markaðnum. Þetta varð niðurstaða allra sérfræðinganna hvort sem þeir voru frá Ríkisendurskoðun eða annars staðar frá þegar það var farið í þetta á sínum tíma.

Af því að mér finnst svo gaman að tala við Kristin H. Gunnarsson, (Forseti hringir.) hv. þm. sem sat á fremsta bekk hjá mér í gamla daga og fékk mjög góðar einkunnir í reikningi þegar ég kenndi honum hann, þá veit ég að hann skilur það sem hér er sagt þó að hann kannski af pólitískum ástæðum vilji ekki viðurkenna það.