Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 22:16:52 (253)

1997-10-08 22:16:52# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[22:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á þremur atriðum sem fram komu í mjög harðri frjálshyggjuræðu hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar áðan.

Í fyrsta lagi vék hann að atvinnuleysi og sagði að við skyldum ræða sem minnst um atvinnuleysi, við ættum að tala um atvinnuþátttöku, hún hefði aukist. ,,Ræðum atvinnuþátttökuna, sleppum atvinnuleysinu.`` Á þessa leið mæltist hæstv. fjmrh. Eigum við þá ekki að láta hið sama gilda um ríkidæmið? Eigum við ekki hætta að tala um fátæktina og tala bara um ríkidæmi? Ríkidæmið hefur aukist í íslensku samfélagi en hið sama á við um fátæktina og hún er alvarlegt þjóðfélagsmein sem ber að uppræta og útrýma. Það sama gildir um atvinnuleysið og þessi mál eigum við að sjálfsögðu að ræða. Það er ekki sæmandi að tala á þann hátt sem hér var gert.

Í öðru lagi heyrðum við gömlu klisjuna frá hæstv. fjmrh. um að ríkisrekstur væri af hinu illa, samneysla væri af hinu illa. ,,Ég fullyrði``, sagði hæstv. ráðherra, ,,að ríkið og ríkisrekstur á að vera sem allra minnstur.`` Hvað er hæstv. ráðherra að tala um? Þau ríkisfyrirtæki sem hann hefur beitt sér fyrir að yrðu seld voru fyrirtæki sem gáfu samfélaginu hagnað, voru ekki byrðar á samfélaginu. Ráðherrann verður að tala miklu, miklu skýrar um hvað hann á hér við. Er hann að tala um samfélagsþjónustuna, menntakerfið, heilbrigðiskerfið eða aðra þætti velferðarþjónustunnar sem hann telur vera af hinu illa og við eigum að losa okkur við eða hvað er hæstv. ráðherra að tala um?

Í þriðja lagi voru það kaldar kveðjur sem lífeyrisþegum og öryrkjum voru sendar héðan úr ræðustól fyrir stundu. Fólkið sem safnaðist saman á Austurvelli fyrir fáeinum dögum til að krefjast kjarabóta, fékk kaldar kveðjur frá hæstv. fjmrh. Á hvern veg voru þær? ,,Bíðið. Bíðið þar til við höfum náð skuldum ríkissjóðs niður.`` Þetta voru skilaboðin til fólks sem margt hvert býr við mjög þröngan kost og vill láta bæta sín kjör núna en ekki eftir einhverja áratugi þegar Friðrik Sophussyni, hæstv. ráðherra þóknast.