Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 10:53:17 (265)

1997-10-09 10:53:17# 122. lþ. 6.91 fundur 35#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:53]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að hafa tekið þetta mál upp utan dagskrár. Það fór sem ég hafði sagt fyrir í umræðum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á síðasta þingi að ríkisstjórnin mundi halda áfram að höggva í þennan knérunn og rýra þar með raunverulegt jafnrétti til náms á Íslandi en það virðist vera eitur í hennar beinum. Við alþýðubandalagsmenn munum ekki láta deigann síga í baráttunni fyrir meira réttlæti í málefnum lánasjóðsins og munum bráðlega leggja fram lagabreytingartillögur sem munu gera kerfið réttlátara. Það er ótrúlegt hvað hæstv. ríkisstjórn virðist blæða í augum að halda uppi þessu námslánakerfi og þær tillögur sem frá Sjálfstfl. hafa komið í gegnum tíðina um lánasjóðinn eru nær alltaf til skerðingar á réttindum þeirra sem hans eiga að njóta og lengi tekst þeim að koma manni í opna skjöldu. Það verður að segja eins og er að þessi síðasta atlaga að þeim eiga í höggi við fjöldatakmarkanir en hafa staðist öll sín próf er alveg dæmalaus. En því ber þó að fagna að ráðherra virðist nú hafa séð að sér og ætlar að taka málið til sérstakrar athugunar og er það vel. Það er erfið upplifun fyrir góða námsmenn að hafa lagt sig alla fram mánuðum saman og ná prófi, en einhverjir aðrir hafa skorað enn betur. Það er e.t.v. spurning hvort á að halda uppi svo ströngum fjöldatakmörkunum og raun ber vitni í fagi eins og læknisfræði þar sem það liggur fyrir að það sárvantar fólk til þess að gegna störfum í læknishéruðum víða um land. En það er annað mál.

Ég hef lengi undrast hugkvæmni ráðamanna í að finna upp niðurlægjandi skerðingarákvæði og minni hér á fallskatta, alveg ótrúlega hugdettu sem var gerð að landslögum á síðasta þingi og er í mínum augum smánarblettur á þjóðinni þar til þeir hafa verið afnumdir.