Hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:06:32 (271)

1997-10-09 11:06:32# 122. lþ. 6.92 fundur 36#B hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:06]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Í umræðunni verður að greina annars vegar á milli þeirra breytinga sem verið er að gera með sameiningu fjárfestingarlánasjóðanna, þ.e. Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Fiskveiðasjóðs, sem sameinaðir eru í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og út úr því verði til nýsköpunarsjóður fyrir atvinnulífið og svo hins vegar þeirrar formbreytingar sem á sér stað á ríkisviðskiptabönkunum. Þarna er mikill munur á. Með sameiningu sjóðanna er verið að stíga það skref að slá þremur starfandi sjóðum saman í eitt hlutafélag og reyndar Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins líka. Þegar það skipulag var tekið til endurskoðunar var það haft að leiðarljósi að ákveðnar hefðir og venjur hefðu viðgengist innan þessara fyrirtækja. Með þeirri breytingu sem þar var gerð voru þessar hefðir og venjur þurrkaðar í burtu og ráðnir nýir yfirmenn.

Hins vegar, þegar við horfum á þá breytingu sem við erum að gera á Landsbankanum og Búnaðarbankanum, eru það starfandi stofnanir sem taka til starfa um næstu áramót. Þær byggja á löngum hefðum og hafa rekið starfsemi sína á traustu viðskiptasambandi milli viðskiptamanna sinna og þeirra stjórnenda sem þar eru, milli starfsmannanna annars vegar og svo stjórnendanna hins vegar og á milli erlendra lánardrottna og þeirra stjórnenda sem þarna hafa verið. Þessi fyrirtæki taka til starfa á grunni þeirra fyrirtækja sem núna eru starfandi. Landsbanki Íslands hf. tekur til starfa á grunni Landsbankans og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur til starfa á grunni Búnaðarbankans. Því var mjög mikilvægt að hægt væri að halda því trúnaðarsambandi sem er milli stjórnenda annars vegar og viðskiptamanna hins vegar áfram vegna þess að breyting á því sambandi, mikil breyting á yfirstjórnendum bankans, gæti leitt til þess að bankinn mundi tapa traustinu á einhvern hátt. Það var það sem var haft sem meginútgangspunktur þegar þessar breytingar voru skipulagðar. Fyrir utan það að með formbreytingum á ríkisviðskiptabönkunum er verið að taka ríkisábyrgðina af bönkunum sem núna eru starfandi og það mun auðvitað hafa miklar breytingar í för með sér.

Þegar breytingarnar voru kynntar og ný stjórn fyrir þessi fyrirtæki var valin lagði ég höfuðáherslu á sex meginatriði sem ég taldi að ættu að fylgja í kjölfar þessara breytinga. Í fyrsta lagi að hafa að leiðarljósi að byggja á þeim grunni sem þessi fyrirtæki taka til starfa á, þ.e. á grunni gömlu bankanna. Í öðru lagi er stefnt að skráningu hlutafélaganna á Verðbréfaþingi Íslands, lagaheimild til útboðs og sölu á nýju hlutafélagi verði nýtt að hluta í þessu skyni. Með þessu verði aðhald og agi í rekstri bankans tryggður, m.a. með þeim reglum sem Verðbréfaþingið setur. Jafnframt mun útboð og sala á takmörkuðu hlutafé á grundvelli fyrirliggjandi heimilda leiða til þess að þá ákvarðast markaðsvirði bréfanna á Verðbréfaþinginu.

Í þriðja lagi verður ráðinn einn aðalbankastjóri að hvorum banka fyrir sig. Það er nákvæmlega í samræmi við þann vilja sem kom skýrt fram frá efh.- og viðskn. Alþingis. Það verður ráðinn einn aðalbankastjóri ásamt tveimur framkvæmdastjórum. Menn töluðu mikið um það í umræðunni að fyrirkomulagið hjá Íslandsbanka væri svo óskaplega gott, einn bankastjóri og síðan margir framkvæmdastjórar. Þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulag, það er einn aðalbankastjóri en tveir bankastjórar sem hafa sömu hlutverkum og skyldum að gegna og framkvæmdastjórarnir í Íslandsbanka nema þessir bankastjórar eru bara tveir á meðan framkvæmdastjórarnir eru fjórir.

Gagnvart lögunum um viðskiptabanka og sparisjóði bera allir þessir menn sameiginlega ábyrgð en þeir bera mismunandi ábyrgð gagnvart eiganda sínum og mismunandi ábyrgð gagnvart stjórnendum fyrirtækisins og í erindisbréfi er hægt að setja mismunandi ábyrgð á þessa menn. Það fyrirkomulag er alþekkt úr bankakerfinu á Íslandi.

Í fjórða lagi til þess að einfalda stjórnkerfi bankans og skýra og afmarka vel verksvið yfirstjórnar höfum við sett þetta upp með þeim hætti að aðstoðarbankastjórar sem þarna voru starfandi fá ákveðin verkefni til að vinna að innan bankanna.

Í fimmta lagi er bankaráðum um hlutafélagabankana ætlað að setja skýrar reglur um starfskjör yfirstjórnar og ákveða heildarlaun í ráðningarsamningi. Í því felst m.a. að bankastjórar þiggja ekki laun fyrir setu í stjórnum, nefndum og ráðum fyrirtækja og stofnana sem eru starfandi á vegum viðkomandi banka. Um þetta verða skýrar reglur.

Í sjötta lagi lögðu starfsmenn þessara fyrirtækja áherslu á það (Forseti hringir.) að þeir fengju áheyrnaraðild að stjórnum fyrirtækjanna. Nefndin, sem vann að undirbúningi málsins, treysti sér ekki til að taka afstöðu til þess. Ég hef hins vegar beint því til stjórnar nýrra hlutafélaga að starfsmönnum fyrirtækjanna verði boðin seta á stjórnarfundum með áheyrnarrétt.