Hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:12:03 (272)

1997-10-09 11:12:03# 122. lþ. 6.92 fundur 36#B hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:12]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Á merkilegu málþingi um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, sem ég sótti í gær, var vikið að einkavæðingu bankanna og þá hló þingheimur. Troðfullur salur af fólki hreinlega skellti upp úr og það segir kannski meira en mörg orð um það hvernig þykir hafa til tekist um þetta áhugaefni margra til fjölda ára.

Meginforsendan, rökin sem alltaf hafa verið færð fyrir nauðsyn þess að einkavæða bankana, einkavæða fjármálaþjónustuna í landinu, eru þau að með því yrði losað um tök stjórnmálamanna og stjórnmálaflokkanna á fjármálamarkaði og atvinnulífi landsmanna. Menn hafa það hver eftir öðrum að einkabankar hljóti að vera betur reknir en ríkisbankar og séu miklu betur í stakk búnir til þess að starfa á faglegum forsendum og þannig ætti það auðvitað að vera og margir trúa þessu. En fengin reynsla hérlendis hefur a.m.k. ekki enn náð að sanna það. Nú er reyndar eftir að sjá hvernig til tekst með hlutafjársölu þegar þar að kemur en framkvæmdin við skipan bankaráða og bankastjórna þeirra ríkisbanka, sem hafa nú verið gerðir að hlutafélögum, hefur verið með þeim hætti að vakið hefur hneyksli og aðhlátur að ekki sé minnst á vonbrigðin. Menn áttu von á breytingum í ljósi alls þess sem sagt hefur verið og rökrætt um þessi efni og skýringar og réttlæting hæstv. viðskrh. eru satt að segja hálfaumkunarverðar. En í fullkomnu blygðunarleysi skipta stjórnarflokkarnir sætum ráðsmanna og bankastjóra á milli sín og bjóða svo fulltrúum jafnaðarmanna til sætis með sér og hafa vafalaust vonast til að með því væru þeir keyptir til þagnar. Hv. þm. sem hóf umræðuna hefur ekki látið þagga niður í sér og það er vel.