Hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:20:54 (276)

1997-10-09 11:20:54# 122. lþ. 6.92 fundur 36#B hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:20]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð inn í þessa umræðu. Ég vil þakka fyrir hana því ég held að mikilvægt sé að hæstv. bankamálaráðherra fái tækifæri til að koma ýmsu á framfæri.

Það voru eiginlega orð fulltrúa Kvennalistans sem gerðu það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs þegar hún talaði um, eftir því sem ég skildi hana, að þetta væri ekki nægilega mikil einkavæðing og gerði grín að málinu. Ég vissi ekki til þess að kvennalistakonur væru einhverjir sérstakir talsmenn einkavæðingar og það er rétt að þetta er engin sérstök einkavæðing sem hér á sér stað. (Gripið fram í.) Við erum að taka ákveðið skref og ákaflega mikilvægt skref. Það er búið að tala um það í áraraðir, ef ekki áratugi, að gera þurfi breytingar á rekstrarformi ríkisbankanna og taka á málefnum atvinnugreinasjóðanna. Þetta hefur ekki tekist. Það hefur ekki náðst um það pólitísk samstaða í þjóðfélaginu að gera þessar breytingar. Það tókst núna og við sem stóðum að þessum breytingum lítum á þetta sem mjög mikilvægt skref, mikilvægt skref í átt til betri vinnubragða í fjármálaheiminum. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það á eftir að taka fleiri skref og það verður eflaust gert. En þetta skref er mikilvægt. Við ætlum ekki að selja hlutafé strax. Það þarf aðra ákvörðun til þess að það verði gert en hins vegar er heimilað að auka hlutafé með nýjum útboðum. Ég er mjög stolt yfir þessari ákvörðun og yfir þessari framkvæmd og ítreka það að í þessum málum eins og svo mörgum öðrum á eflaust eftir að taka fleiri skref.