Hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:24:32 (278)

1997-10-09 11:24:32# 122. lþ. 6.92 fundur 36#B hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:24]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hv. formaður þingflokks framsóknarmanna orðaði það svo að hér hefði verið tekið mikilvægt skref. Mér varð eiginlega hugsað til þessara orða af því að í raun og veru hefur ekkert breyst, nákvæmlega ekkert breyst. Það er komið hf. fyrir aftan nöfnin á þessum bönkum að undanskildu því að nokkrir þingmenn, sem hafa í gegnum tíðina reynt að myndast við að hafa eftirlit með sjálftökuliðinu í bönkunum, geta það ekki lengur. Það er eina skrefið. Ef þetta er mikilvægt skref, hv. formaður þingflokks framsóknarmanna, þá vænti ég þess að þessi þingflokkur taki ekki fleiri mikilvæg skref. Ég bið bara til guðs að ekki verði fleiri skref í þessa átt, því þetta er skref aftur á bak, því miður. Ég hafði miklar væntingar til þessara formbreytinga, hér væru á ferðinni breytingar sem vert væri að styðja og mundu leiða til ákveðinna framfara á þessum fjármagnsmarkaði því þetta eru nú ekki gæfulegar tölur sem við höfum fyrir framan okkur, afskriftir banka og lánasjóða á síðustu átta árum 62 milljarðar, bara sisvona. Ef þessi niðurstaða kallar ekki á drastískar breytingar, þá veit ég ekki hvað það er. En síðan kemur formaður þingflokks Framsóknarflokksins og talar um mikilvægt skref --- að nokkrir þingmenn geti ekki lengur fengið upplýsingar um kaup og kjör og fríðindi sjálftökuliðsins. Mikið var nú innlegg formanns þingflokks framsóknarmanna í þessa umræðu.

Ég spurði hæstv. iðn.- og viðskrh. að því áðan hvort honum þætti eðlilegt að framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokksins sæti einnig sem stjórnarformaður stærsta tryggingafélagsins og sæti einnig sem varaformaður stærsta bankans í landinu. Það er kannski til of mikils mælst að ætlast til þess að hann svari slíkum spurningum. Þetta er vitaskuld bara liður í þessu helmingaskiptakerfi og ég sagði í ræðu minni áðan að líklega fengi hann Nóbelsverðlaun í rökfræði ef hann gæti skýrt þetta út á annan hátt. (Forseti hringir.) Honum hefur ekki tekist það og því er nokkuð ljóst að þessi Nóbelsverðlaun eru sennilega lengra undan en ég hélt.