Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:36:23 (283)

1997-10-09 11:36:23# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:36]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Í gærkvöldi var haldinn athyglisverður fundur í Reykjavík. Þar komu saman með mjög stuttum fyrirvara eitthvað um 250 manns og stofnuðu Samtök um þjóðareign. Í ávarpi fyrir fundinn segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Íslandsmið hafa verið sameign þjóðarinnar frá öndverðu. Á þessari öld háðu Íslendingar harða baráttu fyrir því að aðrar þjóðir viðurkenndu eignarrétt Íslendinga á miðunum. Nýting fiskimiða landsins hefur lagt drjúgan skerf að framförum og velsæld þjóðarinnar á 20. öld. Með lögum um stjórn fiskveiða og framsali ríkisvaldsins á sameign þjóðarinnar til einstakra manna og félaga, án þess að gjald komi fyrir, er brotið gegn eignarrétti þjóðarinnar --- horfið frá leikreglum lýðræðis og jafnréttis.

Fiskimiðin eru í raun að hverfa úr eign íslensks almennings til kvótaeigenda þrátt fyrir þau ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þetta samrýmist ekki hagsmunum og réttlætiskennd þjóðarinnar né hefð í nýtingu fiskimiðanna.``

Síðar í ávarpinu skorar fólk í þessum samtökum á alla að taka höndum saman til að tryggja að þjóðin öll njóti réttláts arðs af sameign sinni, Íslandsmiðum. Þetta verða samtök sjálfstæðra Íslendinga sem una óréttlætinu ekki lengur.

Herra forseti. Mikil reiði í þjóðfélaginu í sambandi við sjávarútvegsmál. Það brýst út í þessum fundi og það sem þar er á ferðinni er tvíþætt. Sumir eru reiðir yfir því að veiðiheimildum sé úthlutað ókeypis. Aðrir beina reiði sinni gagnvart stjórnkerfinu sjálfu.

Við í þingflokki jafnaðarmanna flytjum till. til þál. á þskj. 5 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Með veiðileyfagjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Alþingi kjósi nefnd til að undirbúa löggjöf um þetta efni. Nefndin skili áliti fyrir lok apríl 1998.``

Ákvörðun um veiðileyfagjald er pólitísk ákvörðun. Menn skipast í flokka gagnvart málinu eftir pólitískri afstöðu þó að ekki sé um flokkspólitíska afstöðu að ræða nema að nokkru leyti. Við leggjum til að taki Alþingi ákvörðun um að leggja á veiðileyfagjald, þ.e. gjaldtöku við úthlutun veiðiheimilda, þá fylgi Alþingi því eftir með því að kjósa sjálft nefnd til að undirbúa löggjöf um þetta efni. Ekki er farin sú leið að fela ráðherra framkvæmdarvaldsins slíka nefndarskipun.

Við leggjum sömuleiðis til að veiðileyfagjaldið renni í ríkissjóð en sé notað til að lækka aðra skatta og þá beinum við sérstaklega athyglinni að tekjuskatti einstaklinga. Álagning veiðileyfagjalds er því ekki álagning á fólkið í landinu, þetta er gjaldtaka sem mun renna aftur til fólksins. Veiðileyfagjald eða auðlindagjald eða auðlindaleiga eða auðlindaskattur eða veiðigjald, allt eru þetta samheiti. Víða erlendis þekkist að greitt er fyrir nýtingu þjóðareignar og fullt samræmi er í því. Við viljum leggja auðlindagjald á aðrar sameiginlegar auðlindir eins og vatnsorku eða jarðvarma. Alveg eins ef ríkisvaldið úthlutar verðmætum eins og sjónvarpsrásum.

Við lýsum þeim vilja í tillögu okkar og höfum gert það í umræðu að sett verði lög um auðlindanýtingu og gjaldtöku í því sambandi og má þar benda á frumvörp sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti á síðasta þingi. Tillagan um veiðileyfagjald er því hluti af stefnumótun um uppstokkun í skattkerfinu þar sem auðlindagjald og umhverfisskattar skipta mun meira máli en nú er. Þess vegna teljum við að sú nefnd sem kosin verður ætti að skoða málið í víðara samhengi. Ég bendi á að umræða um auðlindagjald í víðu sambandi hefur verið með vaxandi þunga í þjóðlífinu og má þar nefna ummæli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, formanns Alþb., sem eru nákvæmlega í sömu átt og segir í þáltill. okkar. Ég fagna því og lýsi því yfir að við jafnaðarmenn viljum skoða veiðileyfagjaldið sem lið í því að leggja á almennt gjald á auðlindir landsins.

Það verður að hafa skýrt í huga að umræðan um veiðileyfagjald er í reynd óháð stjórnkerfinu. Hægt er að leggja á veiðileyfagjald þó að stjórnkerfið væri sóknarmarkskerfi. Þessu er oft blandað saman í umræðu og það er ekki heppilegt. Við jafnaðarmenn höfum lagt fram ýmsar tillögur um úrbætur á stjórnkerfinu. Má þar nefna þætti eins og allur fiskur fari um fiskmarkað, að sett verði sérstök löggjöf til að minnka brottkast, sett verði lög til að minnka framsal á veiðiheimildum innan ársins og að rýmkaðar verði fjárfestingar í fiskiðnaði svo að fátt eitt sé nefnt.

Veiðileyfagjaldsumræðan byggist hins vegar fyrst og fremst á því að það er algerlega óásættanlegt að ríkisvaldið úthluti verðmætum á þann hátt sem gert er. Ríkið skammtar þegnunum gæði og þau verða að fémæti ef þau ganga kaupum og sölum og eru verðlögð á markaði. Það er ríkisvaldið hefur skapað þessa stöðu með því að úthluta takmörkuðum verðmætum. Það er óásættanlegt, herra forseti, að menn skuli fá með veiðiheimildunum afnotarétti úthlutað án þess að greiða nokkuð fyrir hann.

Fiskveiðiarður þarf vitaskuld að myndast í sjávarútvegi. Fiskveiðiarður er mismunur á tekjum og gjöldum og hann er líklega um það bil 3--5 milljarðar um þessar mundir en getur farið hratt vaxandi á næstu árum eftir því sem fiskstofnar byggjast upp og meiri hagkvæmni ríkir í sókninni. Vísindamenn telja að fiskveiðiarðurinn geti numið 15--30 milljörðum þegar kjörstöðu verði náð. Við leggjum til í tillögu okkar, og það er nýmæli, að veiðileyfagjaldið verði um það bil 2 milljarðar. Við teljum að sú álagning sé nokkuð sanngjörn í byrjun miðað við að fiskveiðiarðurinn er í kringum 5 milljarða.

[11:45]

Það hefur ekki verið tillaga okkar að draga út úr sjávarútveginum allan fiskveiðiarðinn með veiðileyfagjaldi heldur einungis hluta hans. Það er hægt að benda á t.d. Norðmenn sem lögðu á alveg samsvarandi gjald á sína olíu og greiddu með slíkri auðlindagjaldshugmyndafræði allar sínar erlendu skuldir. Veiðileyfagjaldið hefur ekki einungis réttlætisrök sér til stuðnings heldur ýmiss konar hagkvæmnisrök, þ.e. að styrkja stöðu annarra atvinnugreina, til að styrkja stöðu annarra útflutningsgreina og samkeppnisiðnaðar. Þannig er hægt að halda stöðu raungengisins eins og það er núna og koma í veg fyrir gengishækkun. Þetta vandamál hefur blasað oft á tíðum við okkur og það þarf að hafa skýrt í huga að álagning veiðileyfagjalds hefur ekki í för með sér gengislækkun. Hins vegar getur veiðileyfagjald komið í veg fyrir að það þrengi að öðrum atvinnugreinum og veiðileyfagjald mun einnig staðfesta þjóðareign á fiskimiðum einfaldlega vegna þess að þegar menn greiða leigu fyrir þennan afnotarétt, þá eiga þeir hann ekki. Nú er það orðið þannig að kvótinn er orðinn bitbein í hjónaskilnaðarmálum og sjá menn hve hér er komið illa fyrir okkur.

Það þarf einnig að hafa í huga að það eru þeir sem fyrstir fá úthlutað veiðiheimildum sem njóta þeirra. Þetta mun koma fram í hærra verði á veiðiheimildum, hærra gengi hlutabréfa og vaxandi óréttlæti í þjóðfélaginu. Það er hægt að taka á hluta af þessum málum og ég vil sérstaklega gera að umtalsefni og vísa til frv. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt á hinu háa Alþingi og tekur á nokkrum af þeim málum sem tengjast eignarréttinum.

Erlendis þekkist víða að lagt sé á veiðileyfagjald til að bera uppi kostnað sem þjóðfélagið verður fyrir vegna sjávarútvegs. Það eru ýmiss konar útgjöld vegna sjávarútvegs, bæði við eftirlit, rannsóknir og ýmislegt fleira. Nýsjálendingar eru komnir einna lengst á þessu sviði þannig að þessi hugmyndafræði er síður en svo einsdæmi í heiminum.

Stundum er sagt að hér sé verið að leggja skatt á landsbyggðina. Það er fráleitt því að þetta er lagt á félögin og það eru þau sem greiða þetta. Þau eru náttúrlega staðsett víða um landið. Eigendur geta verið á allt öðrum stað og má nefna sem dæmi að Útgerðarfélag Akureyringa er í meirihlutaeigu Reykvíkinga og reykvískra fyrirtækja. Þetta hefur engin áhrif á fiskvinnsluna vegna þess að fiskvinnslan greiðir fyrir fisk það sem hún getur eftir heimsmarkaðsverði en álagning veiðileyfagjalds kemur þar ekki að.

Við bendum á þrjár leiðir til að leggja á veiðileyfagjald. Einfaldasta leiðin er sú að útfæra þróunarsjóðsgjaldið þannig að lagt sé á árlegt gjald á hvert úthlutað þorskígildi. Þetta er einfaldast í framkvæmd og hægt að útfæra nær samstundis.

Í öðru lagi bendum við á þá leið að ríkisvaldið mundi selja veiðiheimildir á opinberu uppboði, bjóða t.d. upp viðbótarkvóta. Þetta mundi auðvelda aðkomu nýrra manna í greininni.

Í þriðja lagi væri hægt að dreifa veiðiheimildum til allra landsmanna þannig að það skapaðist markaður fyrir þær. Þetta er aðferð sem víða hefur verið farin í sambandi við almannavæðingu ríkiseigna.

Það alvarlegasta í þessu er að það er þegar greitt veiðileyfagjald. Allir nýir aðilar sem vilja halda til veiða hér á landi greiða veiðileyfagjald. Þeir greiða hins vegar ekki veiðileyfagjald til eigenda fiskimiðanna, fólksins í landinu, heldur til þeirra aðila sem fengu þessum veiðiheimildum úthlutað ókeypis á sínum tíma. Við leggjum til veiðileyfagjald þannig að hluti af fiskveiðiarðinum renni beint til þjóðarinnar, eigenda fiskimiðanna. Það er umtalsverður fiskveiðiarður í kerfinu eins og sést best á þeim miklu viðskiptum sem eru með kvóta. Þessi fiskveiðiarður mun aukast sem mun koma fram í hærra verði í kvótaviðskiptum milli þessara aðila. Þetta er orðið þannig að búið er að skipta þjóðinni í tvær stéttir, í þá sem fá ókeypis úthlutun á kvóta og geta verslað með hann að vild og hina sem neyddir eru til að kaupa af þeim þennan kvóta til að halda til veiða. Almenningi í landinu blöskrar það óréttlæti sem blasir við í núverandi kerfi þegar einstakir útgerðarmenn geta hagnast um margar milljónir eða tugi milljóna á sölu eða leigu veiðiheimilda án þess að greiða nokkuð fyrir þann rétt.

Herra forseti. Aðgangur að sameiginlegri auðlind á ekki að vera ókeypis. Það er gjörsamlega óásættanlegt að þetta kerfi verði látið halda áfram eins og stefna þessara ríkisstjórnarflokka er. Það er óásættanlegt að ríkið skammti mönnum rétt til að selja og hagnast á annarra manna eign.