Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:56:53 (288)

1997-10-09 11:56:53# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:56]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þessi till. til þál. sem liggur fyrir um veiðileyfagjald er nú ekki að sjá dagsins ljós í fyrsta sinni þótt hún sé ekki með sama orðalagi og á síðasta þingi eða þinginu þar á undan. Við jafnaðarmenn höfum flutt þessa tillögu tvisvar áður og munum halda áfram að flytja hana þangað til að sú grundvallarákvörðun hefur verið tekin að lagt verði gjald á úthlutun veiðiheimilda í okkar sameiginlegu auðlind. Það er verið að tala um að tekin verði grundvallarákvörðun um það hvort fámennur hópur á að fá ókeypis aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Gæðin, þ.e. hin sameiginlega auðlind, eru takmörkuð og við hljótum að spyrja hvernig almannavaldið eigi þá að deila henni út.

Hingað til hefur almannavaldið deilt henni þannig út að hún hefur verið gefin ákveðnum hópi, afhent án endurgjalds. Það er ekki ásættanlegt. Það gengur ekki og þess vegna þurfa menn að taka afstöðu til þess hvort menn vilja leigja eða selja. Nú er það svo að það er hæpið að þjóðin selji sinn frumburðarrétt. Það er þess vegna sem við tölum um veiðileyfagjald og leggjum til að tekið verði upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi og útskýrum hér að með veiðileyfagjaldi sé átt við gjalddtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Menn velta því mikið fyrir sér hvers konar gjald sé um að ræða. Hv. þm. Pétur Blöndal kom upp áðan og vildi vita hvort um væri að ræða skatt. Ég vil benda hv. þm. á ágæta grein sem dr. Benjamín Eiríksson skrifaði í Morgunblaðið nú í haust þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að um einokunargjald hlyti að vera að ræða einfaldlega vegna þess að með því að almannavaldið loki auðlindinni af fyrir tiltölulega fámennan hóp og skapi þar með einokun, þá hljóti að vera eðlilegt að af því sé greitt einokunargjald. Skilgreiningarnar eru því margar og við getum verið hér í dag upptekin af skilgreiningum á því um hvers konar gjald sé að ræða. Er það skattur? Er það einokunargjald? Er það leigugjald? Um hvað er verið að tala? Kjarni málsins er hins vegar sá að það er réttlætismál að þeir sem fá aðgang að takmarkaðri auðlind greiði fyrir þann aðgang.

[12:00]

Það kom fram í máli frsm., hv. þm. Ágústs Einarssonar, að þingflokkur jafnaðarmanna hefur komið með ýmsar brtt. við fiskveiðistjórnunarlögin. Með þessari till. erum við ekki að taka afstöðu til þeirra. Við erum fyrst og fremst að undirstrika að það sé réttlæti að greitt sé fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og þess vegna beri að leggja á veiðileyfagjald. Við skilyrðum ekki afstöðu okkar því fiskveiðistjórnarkerfi sem er í landinu hverju sinni. Réttlætisrökin eiga nefnilega við svo lengi sem um er að ræða stjórn fiskveiða og samkeppni um fénýtingu sameiginlegrar auðlindar. Og miðað við þá veiðitækni sem við búum yfir og miðað við þekkingu á líffræði sjávarins er ekki hægt að sjá fyrir að stjórn eða takmörkun á veiðum á Íslandsmiðum verði aflétt. Við sjáum það ekki fyrir. Þess vegna sjáum við það einungis fyrir að takmörkunum verði beitt við sóknina og á meðan þeim verður beitt verður um það að ræða að tiltekinn hópur fær og annar ekki. Um það snýst þetta mál. Þess vegna er mér óskiljanlegt að menn séu að skilyrða afstöðu sína breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hvað ef fiskveiðistjórninni verður ekkert breytt næsta áratuginn, næstu tvo áratugi? Gilda réttlætisrökin ekki? Eru þeir sem skilyrða stuðning sinn við veiðileyfagjald breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sáttari við núverandi ástand? Eru menn þá sáttari við núverandi ástand án veiðileyfagjalds? Þetta er fráleit niðurstaða, herra forseti, vegna þess að hvað svo sem mönnum kann að finnast um kvótakerfið, réttlæti þess og ranglæti, þá er kvótakerfi með veiðileyfagjaldi bæði heppilegra og réttlátara fyrirkomulag en kvótakerfi án veiðileyfagjalds. Það er réttlátara vegna þess að þá er greitt fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þannig að eigandinn er virtur. Og það er líka heppilegra vegna þess að ef við setjum á veiðileyfagjald þá erum við að staðfesta eignarhald þjóðarinnar og gera auðveldara að breyta þessum lögum ef sá vilji verður framkallaður hér á Alþingi með næstu kosningum.

Það hlýtur líka að ráða einhverju um afstöðu manna eða a.m.k. að hafa áhrif á hana, þó að menn horfi auðvitað fyrst og fremst á réttlætisrökin, hvort almenn lífskjör í landinu verði betri við þessa gjaldtöku. Við höfum bent á að þetta gjald væri hægt að nýta til þess að greiða fyrir þann kostnað sem beint eða óbeint er á ríkissjóði vegna sjávarútvegs. Í ræðu minni í gær um fjárlagafrv. benti ég á að miðað við þær upplýsingar sem þar liggja fyrir mundi sá kostnaður vera rúmir 4 milljarðar. Þeir milljarðar væru sannarlega betur komnir, við skulum segja í menntakerfinu, í heilbrigðiskerfinu eða annars staðar þar sem samfélagsþjónustan á að eiga sér stað.

Niðurstaða mín er því sú að gjaldtaka leiði til betri lífskjara og það er sú sýn sem ég vil gjarnan hafa á þetta mál auk réttlætisrakanna. Það hefur líka verið bent á að andvirði þess gjalds sem tekið væri fyrir aðgang að auðlindinni yrði nýtt til þess að lækka tekjuskatt. Það mundi einnig bæta lífskjörin í landinu. En með óbreyttu ástandi er verið að vernda þrönga sérhagsmuni. Og þessi þröngu sérhagsmunir (Forseti hringir.) geta reynst almannahag mjög þungir í skauti vegna þess, herra forseti, að fræðin leiða ekki til þeirrar niðurstöðu að auður fárra hljóti að leiða til almennrar velsældar.