Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 12:05:30 (289)

1997-10-09 12:05:30# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[12:05]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er stundum sagt um þá stofnun sem hér er að störfum að hún sé ekki í miklum tengslum við fólkið í landinu. Í þessu máli á sú gagnrýni rétt á sér. Hér erum við að ræða eitt mest umtalaða mál meðal almennings í landinu, veiðileyfagjald og tengsl þess við mismunandi stjórnkerfi fiskveiða. Um ekkert eitt einstakt mál hefur jafnmikið verið skrifað í blöð eða er jafnmikið rætt og út af engu máli sem þessu sýður gremjan í brjóstum fólksins í landinu jafnmikið, sem sér dæmi um óréttlæti þess kerfis sem við búum við. Það er alveg sama hvar borið er niður eða við hvern er rætt, þó að menn hafi mismunandi skoðanir á ýmsum framkvæmdaatriðum málsins, þá sýður gremjan og óánægjan í öllum Íslendingum út af því óréttlæti sem núgildandi kerfi og framkvæmd þess býður fólki upp á.

Margir segja að hér sé um að ræða stærsta pólitíska mál þjóðarinnar. En þegar þetta stærsta pólitíska mál þjóðarinnar er rætt á Alþingi þá er það gert að öllum forustumönnum stjórnarflokkanna fjarverandi. Það eru Sjálfstfl. og Framsfl. sem bera ábyrgð á þessu kerfi. Sumir, að vísu fáir, en þó nokkrir þingmenn þessara flokka, gera sér grein fyrir því í hvaða ógöngur er komið. En það er umhugsunar- og athyglisvert að í hvert einasta skipti sem reynt er að ræða þetta stærsta pólitíska mál þjóðarinnar hér á Alþingi þá eru allir ráðherrastólar tómir, þeir sem bera ábyrgð á stefnumörkuninni víðs fjarri og enginn af forustumönnum Sjálfstfl. eða Framsfl. er svo mikið sem viðstaddur umræðuna, hvað þá heldur að þeir taki þátt í henni.

Menn hafa rætt um veiðileyfagjald frá ýmsum sjónarmiðum. Þeir sem lengst hafa gengið í þeirri umræðu ræða um að veiðileyfagjald geti orðið stjórntæki við stýringu fiskveiða. Út af fyrir sig kann það að vera rétt og rök ýmissa þeirra sem eru fylgjandi veiðileyfigjaldi í þeirri mynd eru að mínu viti nokkuð sannfærandi. Við þingmenn jafnaðarmanna höfum hins vegar aldrei rætt um veiðileyfagjald í því samhengi að við teljum að það eigi að taka við og verða almennt stjórntæki í fiskveiðum. Eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sagði þá er slík útfærsla ekki í okkar huga. Veiðileyfagjald getur hins vegar, sem leigugjald fyrir afnotarétt fárra af auðlind fjöldans, gengið með öllum stjórnkerfum fiskveiða. Það er hægt að innheimta veiðileyfagjald í núgildandi kvótakerfi, það er hægt að innheimta veiðileyfagjald í skrapdagakerfi eða slíku stýrikerfi og það er hægt að innheimta veiðileyfagjald í frjálsum fiskveiðum. Þannig að í umræðunni mega menn ekki rugla saman annars vegar því stjórnkerfi sem Alþingi kann að velja til að stýra fiskveiðum í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar og afrakstursgetu auðlindarinnar og hins vegar veiðileyfagjaldi sem getur gengið með hinum ýmsu stjórntegundum sem menn hafa um að velja.

Það er mjög undarlegt að menn skuli enn, eftir alla þessa umræðu, vera að velkjast í vafa um hvað veiðileyfagjald er. Veiðileyfagjald er leigugjald fyrir afnotarétt fárra af auðlind fjöldans. Það er kveðið á um það í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Alþingi ráðstafar þeirri sameign, tekur ákvörðun um hvernig hún skuli nýtt, þar á meðal hefur Alþingi rétt til þess að taka ákvarðanir um það undir hvaða skilmála þeir skuli ganga sem með lögum frá Alþingi fá rétt til þess að nýta þessa auðlind sem almenningur á en hefur ekki nýtingarréttinn að. Þannig að það liggur alveg ljóst fyrir í fyrsta lagi hver skilgreining á veiðileyfagjaldi er og í öðru lagi að Alþingi hefur fulla heimild til þess að leggja á veiðileyfagjald í samræmi við það vald sem Alþingi hefur tekið sér um þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar, hvernig henni skuli ráðstafað til einstakra aðila sem njóta þar forgangsréttar um nýtingu umfram aðra. Og veiðileyfagjald er ekkert annað en það að þeir aðilar sem með ákvörðunum Alþingis fá heimild til þess að nýta auðlind fjöldans greiði fyrir það tiltekið gjald. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal skilur þetta mætavel og þarf ekkert að vera að velkjast í vafa um skilgreiningu hugtaka í þessu sambandi.

Stundum er sagt að það sé ekki hægt að taka afstöðu til málsins vegna þess að einstök framkvæmdaatriði þess liggi ekki fyrir. Það er rangt. Spurningin sem fólk þarf að taka afstöðu til er mjög einföld. Er það sanngjarnt eða er það ekki sanngjarnt að þegar tiltölulega fáir einstaklingar fá rétt til að nýta sér auðlindir í eigu þjóðarinnar, þá greiði þessir fáu einstaklingar þjóðinni afgjald fyrir þann rétt sem þeir hljóta með ákvörðunum hins háa Alþingis? Þetta er spurningin sem menn þurfa að svara. Er það rétt eða er það rangt að menn greiði veiðileyfagjald fyrir afnotarétt? Svarið við þessri spurningu er mjög einfalt, já eða nei. Ef menn svara þessari spurningu játandi, þá kemur að sjálfsögðu að framkvæmdaatriðinu, hvernig menn eiga að innheimta þetta gjald. Til þess eru ótal leiðir og það má vel vera að þeir sem eru fylgjandi veiðileyfagjaldi séu ekki sammála um framkvæmdina. En það á bara sama við um svo fjölmargt annað sem Alþingi Íslendinga og þjóðin er fyrir löngu búin að svara játandi.

Eftirfarandi spurning var lögð fyrir á sínum tíma: Er réttlátt að menn greiði til sameiginlegra þarfa eftir efnum og ástæðum? Þeirri spurningu var svarað játandi og engum manni dettur í hug í dag að það svar hafi verið rangt. Hins vegar er eilíft deiluefni bæði meðal þjóðarinnar og hér í sölum Alþingis hvernig menn eigi að framkvæma þá niðurstöðu að menn greiði til sameiginlegra þarfa eftir efnum og ástæðum. Menn eru ekki sammála um t.d. hvað tekjuskattsprósentan eigi að vera há. Menn eru ekki sammála um hvað skattleysismörkin eigi að vera há. Menn eru ekki sammála um ýmsar undanþágur í því kerfi til að innheimta gjöld og skatta. En mönnum dettur ekki í hug að það eigi ekki að innheimta gjöld og skatta til sameiginlegra þarfa af þeirri einu ástæðu að menn séu ekki sammála um framkvæmdina. Þá yrði nú skrýtið upplit á þessu samfélagi ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt (Forseti hringir.) að framkvæma slíka sanngirniskröfu að menn greiði eftir efnum og ástæðum til sameiginlegra þarfa, vegna þess að menn væru ekki sammála um framkvæmdina. Það er nákvæmlega sama lykilspurningin sem menn þurfa að svara í þessu máli. Er það sanngjarnt eða er það ósanngjarnt að nýtendur auðlindarinnar sem við eigum sameiginlega greiði okkur fyrir nýtinguna eða ekki? Um framkvæmdina geta menn síðan tekist á og deilt en það getur ekki verið, virðulegi forseti, að það vefjist fyrir mönnum svarið við hinni einföldu réttlætisspurningu.