Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 12:33:39 (294)

1997-10-09 12:33:39# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[12:33]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er laukrétt hjá hv. þm. að umræðan í þjóðfélaginu er oft og tíðum bæði um veiðileyfagjaldið eða gjaldtökuna og fiskveiðistjórnarkerfið. Ég hef lagt áherslu á að reyna að gera skil þar á milli og ég fagna því að þingmaðurinn tekur undir það.

Þingmaðurinn segist styðja málið ef gjaldið rynni beint til eigandans en yrði ekki notað til að lækka skatta. Hann treysti þingmönnum illa. Það á náttúrlega ekki að gera það. Það eru þingmenn sem setja lög í landinu, þeir hafa fjárveitingavaldið. Þessi tillaga er beinlínis sett upp þannig að Alþingi kjósi nefnd sem undirbúi þessa löggjöf þegar hin pólitíska ákvörðun hefur verið tekin. Ég hef lýst hér vilja flutningsmannanna við útfærslu sem vel má vera að einhver ætli að segja um: Það á að leggja á veiðileyfagjald til að bera uppi kostnað ríkissjóðs við sjávarútveg sem er um það bil 3 milljarðar. Við leggjum það hins vegar ekki til. Við leggjum til að þessir peningar verði notaðir til að lækka skatta almennings. Ég nefni hér fyrst 2 milljarða sem gætu kannski orðið 15 milljarðar eða eitthvað þess háttar þegar fram líða stundir. Þessi hagnaður er mjög að aukast.

Ég er búinn að lýsa vilja okkar í þingflokki jafnaðarmanna á þessari útfærslu. Ef þingmaðurinn vill koma í þá vinnu að gera það, þá er það jákvætt en ég bendi hins vegar á að hann er einn á báti í sínum þingflokki og í sínum flokki að vera jákvæður gagnvart þessari hugmyndafræði. Þannig að þó svo að ég meti hv. þingmann mjög mikils þá er vægi hans innan Sjálfstfl. í þessu máli nær ekkert. Hér ræður vilji forsrh. og ráðherranna sem ekki eru viðstaddir. Þeir kjósa að sýna fólkinu í landinu þá lítilsvirðingu að taka ekki þátt í þessum umræðum. Það er þeirra mál. Fólkið kann alveg að lesa út úr fjarveru manna hér, þingmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. En ég fagna hins vegar þessari umræðu hv. þingmanns.