Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 13:32:00 (297)

1997-10-09 13:32:00# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:32]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að þetta sé í þriðja skipti sem þingflokkur jafnaðarmanna, held ég að hann heiti núna, flytur þáltill. um veiðileyfagjald. Haustin 1995 og 1996 fluttu þeir einnig þáltill. um sama efni. Í bæði skiptin hafði ég ástæðu til að taka til máls um þáltill.

Sú greinargerð sem fylgdi haustin 1995 og 1996 var dálítið öðruvísi en sú greinargerð sem nú fylgir því að þá var tekið fram að mjög margar útfærslur á veiðileyfagjaldi væru hugsanlegar og mjög margar hugsanlegar skatttegundir voru taldar upp. Í bæði skiptin, þ.e. í umræðunum haustið 1995 og 1996, tók ég fram í þessum ræðustól að ég gæti tekið undir að sérstakur tekjuskattur á sjávarútvegsfyrirtæki væri vel hugsanlegur undir þeim kringumstæðum að fiskveiðiarðurinn væri orðinn mjög mikill.

Nú bregður við í þáltill. að ég sé ekkert um þennan sérstaka tekjuskatt eins og þeir tóku fram áður. Þess vegna vil ég taka fram að ég er enn þá sama sinnis og ég var haustin 1995 og 1996. Hins vegar er rétt sem kemur fram í greinargerðinni að ýmis sjónarmið eru í þessum hlutum og er því rétt að fara yfir málið. Eins og flutningsmaður gat um áðan í framsöguræðu sinni er mikill kurr og hiti í þjóðfélaginu vegna stjórnunar fiskveiða.

Hann gat sérstaklega um að í gær hefðu verið stofnuð mikil samtök sem hefðu að markmiði að berjast fyrir --- ég vissi ekki alveg hverju vegna þess að ég hef reynt að lesa í morgun hvert væri markmið þessara samtaka og ég kemst helst að því að það ágæta fólk sem í þeim er viti ekki hvers biðja ber. Samt er greinilega mikill kurr í mönnum, menn eru þeirrar skoðunar að mjög ranglega sé farið með og ástæða til þess að endurskoða allt saman og ég skal taka undir það. Hins vegar er mjög slæmt að menn viti ekki hvers biðja ber.

Eins og kemur fram í greinargerðinni er það rétt að sjónarmið manna hafa mjög skipst um það hvort beri að stjórna fiskveiðum með sóknarmarksaðferðum eða aflamarksaðferðum. Ég hef oft rætt þetta bæði í þessum ræðustól svo og við 1. flm. þáltill., hv. þm. Ágúst Einarsson. Það er rétt að ég hef haldið því fram og held því fram enn og ég hef mikla sannfæringu fyrir því að að minnsta kosti varðandi veiðar á botnfiski sé mjög brýnt til að ná árangri í fiskveiðistjórn að við stjórnum sókninni. Ég skal koma nánar að því aftur. Ég er sannfærður um að þrátt fyrir mikla viðleitni allt frá 1984 hefur Íslendingum ekki tekist að ná neinum umtalsverðum árangri í stjórn fiskveiða með þeim aflamarksaðferðum sem notaðar eru í botnfiskveiðunum. Hins vegar, herra forseti, getur verið rétt og ég skal fúslega viðurkenna það og gögn hafa verið lögð fram um það að við höfum mjög sennilega aukið fiskveiðiarðinn í veiðum uppsjávarfiska með úthlutun aflamarkskerfisins í síld og þá fyrst og fremst í loðnu.

Ástæðan fyrir því að okkur hefur tekist þetta er að mínu mati sú að kenningarnar ganga miklu betur upp í reyndinni við stjórn fiskveiða við uppsjávarfiskana því aðalgallinn á aflamarkskerfinu er hin gríðarlega sóun sem á sér stað í veiðunum. Það er ofboðslegu hent af fiski við Íslandsmið, ekki þýðir að þræta fyrir það. Það er ofboðslegu hent af fiski. Það hefur skelfileg áhrif þó ég tali ekki um hvernig það ruglar fiskifræðingana í ríminu. Það gefur þeim alranga mynd af því sem verið er að veiða þannig að allur framreikningur þeirra á stofnstærðinni verður rangur og rangar tölulegar upplýsingar leiða okkur alla í vitleysu. Miklu er hent af fiski og í kerfinu er mjög mikið svindlað. Aðalsvindlið er löglegt, það er samkvæmt lögum. Það byggist á því að vinnsluskipum er úthlutað aflamarki. Aflamarkið er síðan bakreiknað þegar afurðum skipsins er landað samkvæmt stuðlum. Stuðlarnir gerbreyta rekstraraðstöðu aflamarksskipanna í samkeppni við fiskvinnslu í landi og er að leggja hana af. Þetta skekkir samkeppnismyndina og veldur óskaplegum vandræðum og kostnaði í þjóðfélaginu í heild. Það er niðurstaða mín og meining, herra forseti, að það sé alrangt sem haldið er fram að við höfum náð einhverjum sérstökum árangri í fiskveiðistjórnun. Það er af og frá. Við erum með tiltölulega lítinn fiskveiðiarð í bolfiskveiðum í dag rétt eins og við vorum með áður. Það hefur mjög lítið breyst. Ef við lítum á stöðu efnahagsmála, viðskiptaójafnvægi við útlönd, rekstrarafkomu greinanna, er mikil firra að við þurfum að hafa áhyggjur af því að arðsemin í sjávarútvegi sé að eyðileggja vaxtargrundvöllinn fyrir öðrum útflutningsgreinum eins og má lesa á bls. 2 sem hugsanleg vandræði. Þetta er alrangt og langt frá því að vera rétt.

Sjávarútvegurinn stendur heldur illa í dag að undanskildum uppsjávarfiskveiðum og mjölvinnslunni. Það kemur til af því að við höfum verið með raungengishækkanir í gangi allt þetta ár og við höfum verið með miklar kostnaðarhækkanir, meiri launahækkanir hér en í samkeppnislöndum okkar þannig að sjávarútvegurinn eins og hann stendur á Íslandi hefur ekkert til að hrósa sér af, ekki neitt.

(Forseti (StB): Tíminn er búinn eða þær 8 mínútur sem hv. þm. hefur. Tvisvar sinnum reyndar.)

Ég biðst afsökunar. Ég hélt að ég mætti tala í 40 mínútur. Ég var rétt að byrja ræðuna, var varla byrjaður. (Gripið fram í: Þú mátt koma aftur. Þú mátt taka minn tíma.) Nei, ég skal fara héðan og byrja svo aftur, fara eftir reglunum. Ég hafði ekki hugmynd um þetta. Ég bið um orðið aftur.