Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 13:46:54 (301)

1997-10-09 13:46:54# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:46]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess að vekja alveg sérstaka athygli á þeim ákvæðum þingskapalaganna sem fjalla um umræður um þáltill. Og forseti skammtaði réttilega ræðutímann átta mínútur eins og kveðið er á um í þingskaparlögunum. En það er auðvitað alveg fráleitt fyrirkomulag að takmarka ræðutíma við átta mínútur en heimila svo andsvör við þá ræðu sem geta staðið tvisvar sinnum lengur eða í 15 mínútur. Það er auðvitað ekki mjög skynsamlegt ræðukerfi að ræða geti staðið svo skamman tíma að ekki megi tala lengur en átta mínútur en andsvörin geti verið hartnær tvisvar sinnum lengri.

Ég er ekki að gera athugasemd við fundarstjórn forseta en ég kveð mér hljóðs til þess að vekja athygli á þessu og vil fara fram á það við forseta að hann beiti sér fyrir því að gerð verði breyting á þessu og þá á þann veg að ræðutími í þáltill., umræðum um þær, verði 15 mínútur þannig að heimilt verði að flytja a.m.k. jafnlangar ræður og andsvörin sem hægt er að veita við þá ræðu. Satt að segja er átta mínútna ræðutími allt of skammur tími til þess að unnt sé að ræða um viðamiklar þáltill. til hlítar þó ég taki auðvitað undir það að ræðutími þurfi að vera skammtaður.