Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 13:49:07 (303)

1997-10-09 13:49:07# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:49]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. --- ,,Uppi eru deilur með þjóðinni í stórmáli, miklu hagsmunamáli. Ástandið er þannig að árlega eru tugir milljarða króna af sameign þjóðarinnar gefnir tiltölulega litlum hópi manna.

Þessi sameign, þetta verðmæti, er þannig til komið, að löggjafarsamkoman hefir skapað einokunaraðstöðu fyrir takmarkaðan veiðiflota. Veiðiskip með kvóta fær því meiri afla en það myndi, væru veiðarnar ekki takmarkaðar heldur öllum frjálsar. Auk þess er næsta víst að fiskverð hækkar við þetta. Það myndast einokunargróði. Hann rennur fyrst og fremst til þeirra fáu manna sem fá að nota ókeypis hinn takmarkaða veiðirétt innan fiskveiðilögsögunnar. Þessi gróði er sköpunarverk Alþingis, alþingismannanna. Svona ástand er auðvitað óþolandi til langframa.``

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur í greinum í Morgunblaðinu fjallað um málið. ,,Hinn 9. þessa mánaðar birtir hann 3. greinina, þar sem hann dregur saman röksemdir sínar í stuttu máli. Kjarni málsins er þarna ljós. Þar með gín rökvilla hans við lesandanum.

,,Það sem Karl Marx skildi ekki, var að myndun einstaklingsbundinna eigna- eða nýtingarréttinda á náttúrugæðum er besta leiðin til þess að tryggja skynsamlega nýtingu slíkra gæða.``

Já, og hvað svo? Jú, segir Hannes, þess vegna verða þeir sem fara með þessar eignir að fá þær gefins í upphafi.

Tökum tvo bændur sem dæmi. Annar erfir jörðina, sem hann býr á, fær hana gefins, hinn kaupir hana á fasteignamarkaðnum. Hvað tálmar því, að báðir fái búið við sömu skilyrði: notið náttúrugæða jarða sinna sem einkaeignar? Þetta þýðir einfaldlega það, að það er eins hægt að búa við einkaeignarréttarskipulagið þótt náttúrugæðin séu keypt. Tal Hannesar um ,,skynsamlegri nýtingu fiskstofnanna`` er því máli óskylt, hvort kvótarnir séu gefnir eða seldir. Svona röksemdir heita á ensku ,,red herring``, rauð síld.

Hvað er einokunargróði? Einokunargróði er verðmæti sem skapað er með sérstakri aðstöðu, valdi af einhverju tagi, valdboði, einokun eða fákeppni. Verðmætið verður til án tilkostnaðar, án þjónustu, án framleiðslukostnaðar. Hafirðu þessa aðstöðu, þetta vald, geturðu skapað svona verðmæti. Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins er einfalt dæmi, takmörkun fiskveiðanna með valdboði, annað. Formælendur gjafastefnunnar draga alltaf athyglina frá því grundvallaratriði, að verðmæti kvótans er einokunargróði, skapaður af ríkisvaldinu.

Útgerðarmaðurinn getur greitt allan útgerðarkostnaðinn af andvirði aflans og keypt kvótann að auki fyrir afganginn, sem myndazt hefir við það, að aðgengið að miðunum er takmarkað --- sem þýðir að meiri afli fæst með minni tilkostnaði. Hlutur kvótans í aflaverðmætinu er augljóslega hreinn einokunargróði, skapaður af ríkisvaldinu.

Kvótarnir ganga kaupum og sölum --- þessir umframpeningar --- fyrir tugi milljarða. Hvað hugsar þjóðin? Ríkisvaldið vantar peninga til hluta sem ,,við öll`` viljum: Í heilbrigðisþjónustuna, skólakerfið og velferðina, svo eitthvað sé nefnt. Hvað leyfa alþingismennirnir sér að aðhafast --- og aðhafast ekki --- í alþjóðaraugsýn? Hver er skýringin? Bera eigendur kvótanna fé í stjórnmálaflokkana?``

Virðulegi forseti. Þessi orð sem ég hef flutt hér eru ekki mín þótt ég geri þau að mínum. Þetta er blaðagrein sem birtist þann 15. ágúst eftir lærðasta hagfræðing íslensku þjóðarinnar, dr. Benjamín Eiríksson, og er svar við greinaflokki sem birtist í Morgunblaðinu eftir þann mann sem gerst hefur sérstakur hugmyndafræðilegur talsmaður þessa einokunargróða í skjóli ríkisvalds.

Virðulegi forseti. Árið 1948, fyrir hálfri öld, voru leiðtogar íslenska lýðveldisins komnir í þrot. Þeir sátu þá uppi með ónýtt efnahagskerfi sem hafði þau höfuðeinkenni að ríkisvaldið skammtaði þjóðinni öll gæði. Innflutningi var skipt milli pólitískra hagsmunaaðila, útflutningsleyfum var skipt milli pólitískra hagsmunaaðila, himinháir tollar voru lagðir á innflutning til þess að bæta upp falskt gengi og útgerðinni var haldið uppi með margvíslegum styrkjum. Þetta kerfi komst í þrot og þá var það seinasta úrræði landsfeðranna að kveðja heim frá Bandaríkjunum mann sem heitir dr. Benjamín Eiríksson. Hann var fyrstur manna á Íslandi til þess að leggja fram tillögur um heildstæða breytingu á íslensku hagkerfi í átt til markaðsbúskapar og samkeppni frá pólitísku skömmtunarkerfi og einokunarkerfi. Því miður fór það svo, virðulegi forseti, þá að leiðtogar Sjálfstfl. og Framsfl. á þeim tíma, með þeim takmarkaða skilningi sem þeir voru gæddir á þjóðfélagsmálum og hagstjórn, klúðruðu þessari merku tilraun til þess að breyta íslensku þjóðfélagi frá hálfsovésku skömmtunarkerfi yfir til nútímastjórnarhátta. Það þýddi það að efnahagsframförum á Íslandi var seinkað um heilan áratug.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri að sinni, virðulegi forseti, enda ræðutími takmarkaður. En ég segi: Ég vorkenni þeim mönnum á Alþingi Íslendinga sem skapað hafa þennan einokunargróða og úthlutað honum í skjóli pólitísks valds fyrir þann dóm sögunnar sem þeir munu fá fyrir það athæfi. Ég bendi á að enn er tækifæri fyrir alþingismenn að reka af sér slyðruorðið og taka um það pólitíska ákvörðun að taka alvarlega skyldur sínar gagnvart almannahagsmunum og þjóðarhagsmunum og að hætta að láta nota sig sem pólitísk handbendi til þess að skila slíkum einokunargróða í hendurnar á örfámennri valdstjórnarklíku. Ég get hins vegar undir lokin sagt sem svo að þeir skiptast kannski í tvennt. Annars vegar eru þeir sem ganga erinda annarra, ganga erinda sérhagsmuna eða telja sig hafa hagsmuna að gæta. Þeir vita kannski hvað þeir eru að gera. Hins vegar eru þeir sem sitja á Alþingi Íslendinga og hafa ekki nennt að leggja það á sig að hugsa til hlítar til niðurstöðu um þetta stærsta mál þjóðarinnar og um þá má kannski segja eins og Kristur sagði forðum: ,,Fyrirgefið þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera.``