Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 13:56:48 (304)

1997-10-09 13:56:48# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:56]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það voru uppi miklar efasemdir margra manna 1984 þegar þetta fiskveiðikerfi var fyrst innleitt hér á Alþingi. Það voru margir sem töldu og hafa bent á að það mundi leiða til ófarnaðar. Það væri óréttlátt. Það væri rangt, það væri röng stjórnun.

Ef ég man rétt, herra forseti, þá var hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ráðherra frá því 1987--1995. (Gripið fram í: Allt of stutt.) Það var nú ekki hægt að lengja í árinu, herra þingmaður, það voru 365 dagar í hverju ári þannig að það var ekki hægt að breyta því neitt. Hann var ráðherra allan tímann. Hvernig má það vera að þessi ágæti hv. þm. komi hér og biðji guð að hjálpa öðrum þingmönnum. Ja, ég tek það ekki til mín. Þó að ég viti að hann hugsi fallega til mín þá held ég að það sé fallega gert af þeim sem hafa staðið að ríkisstjórnum allan þennan tíma, verið ráðherrar þeirra ríkisstjórna sem hafa útfært þetta kerfi, að biðja guð að hjálpa öðrum. En þeir mættu líka biðja guð að hjálpa kannski einhverjum sér nær.