Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:05:51 (309)

1997-10-09 14:05:51# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:05]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Allur tillöguflutningur á Alþingi um sjávarútvegsmál sem miðar að því að breyta óbreyttu ástandi er vissulega fagnaðarefni og ég tek greiðlega undir það með hv. þm. að þær tillögur sem hann vísaði til eru ágætar svo langt sem þær ná. Hann hefði gjarnan mátt taka fram að þetta eru ekki einu tillögurnar sem fram eru komnar sem skipta máli og verðskulda athygli, umræðu og afgreiðslu. Ég minni á að þingflokkur jafnaðarmanna hefur flutt tillögur, sennilega sex eða sjö talsins, um flesta þætti þessara mála, bæði til þess að sníða af verstu agnúana eins og brottkastið, þ.e. spurningin um umgengni við auðlindina, og fjöldamörg önnur mál sem ég hirði ekki hér upp að telja sem snúast um að sníða af agnúa á núverandi kerfi.

Sú tillaga sem hér er um að ræða er hins vegar langsamlega stærsta málið vegna þess að það er einfaldlega svo að við í stjórnarandstöðu erum ekki líkleg til þess að vinna meiri hluta á Alþingi Íslendinga um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Og ég vek athygli á því t.d. að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er í vonlitlum minni hluta í sínum þingflokki um sín sjónarmið og talar hér að því leyti eins og við, sem rödd hrópandans í eyðimörkinni. En þetta er auðvitað langsamlega stærsta málið vegna þess að þetta varðar grundvallaratriði og ég segi einfaldlega: Hvaða fiskveiðistjórnarkerfi sem við kynnum að verða ásátt um að taka upp er ekki til neinna bóta frá óbreyttu ástandi ef ekki er sá skilningur fyrir hendi að takmarkaður aðgangur að auðlindinni sem Alþingi ákveður skapar einokunargróða og ef menn ekki hafa skilning á því (Forseti hringir.) að þennan einokunargróða má ekki í skjóli pólitísks valds úthluta fámennum hópi forréttindamanna vegna þess að það getur lýðræði á Íslandi aldrei liðið til langframa.