Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:08:14 (310)

1997-10-09 14:08:14# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:08]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þennan einokunargróða á að taka með skattlagningu eins og annan einokunargróða. Til þess eru lög í landinu að þessi einokunargróði eins og annar einokunargróði verði skattlagður. Þetta mál snýst um þrennt en ekki eitt eins og hv. þm. talar um eins og trúaður maður hér í þessum stól og er nú farinn að biðja til guðs af öllum mönnum í þessari virðulegu stofnun. Þetta snýst um þrennt:

Í fyrsta lagi snýst það um fiskveiðistjórn. Í öðru landi um umhverfismál. Í þriðja lagi um skatta. Og menn þurfa að gera sér grein fyrir því að jafnvel þó að þessi tillaga yrði samþykkt, þá mundi hún engu breyta um fiskveiðistjórnina, eins og hver sagði? Jón Arason, vinur minn, skipstjóri í Þorlákshöfn, formaður samtakanna sem voru stofnuð í gærkvöld. Hann benti á þetta í útvarpsviðtali í morgun og var fjarska vel og skýrt að orði komist. Þannig að það er alveg nauðsynlegt í þessu máli að menn tali skýrt og nenni að hugsa sig í gegnum hlutina, líka meðan þeir eru að tala hér í þessum ræðustól.

Staðreyndin er sú að tillagan felur ekki í sér kerfisbreytingu heldur skatt á vont kerfi. Það kann út af fyrir sig að vera aðferð að taka þannig á hlutum að það eigi sérstaklega að skattleggja vitleysurnar. En tillagan sem slík er ekki tillaga um kerfisbreytingu heldur tillaga um skatt eins og hún lítur út og Alþingi leggur ekki á skatta með þáltill. eins og hv. þm. ætti að vita af því að hann var fjmrh. um hríð.