Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:32:35 (319)

1997-10-09 14:32:35# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:32]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér gremst það nokkuð þegar hv. þm. talar æ ofan í æ um íslenskan sjávarútveg eins og hann sé einhver aumingjaatvinnugrein. Hann er það ekki. Íslenskur sjávarútvegur er sterk atvinnugrein og til allrar hamingju eru flest fyrirtæki þar rekin af dugnaði og með hagnaði. En það er sama aumingjatalið hér aftur og aftur af hálfu andstæðinga þessarar hugmyndafræði. Alltaf að vilja vera á hnjánum frammi fyrir stjórnvöldum hverju sinni, biðjandi um ölmusur eins og menn gerðu á árum áður í sjávarútvegi og annars staðar. Mér gremst þessi röksemdafærsla og umræða af hálfu hv. þingmanns vegna þess að íslenskur sjávarútvegur á þetta ekki skilið.

Það er hins vegar fráleitt þegar hann ætlar að spila gömlu plötuna með fiskverkafólkið og sjómennina á landsbyggðinni. Hefur það fengið arðinn af sölu veiðiheimilda? Hafa útgerðarmenn sem fengu ókeypis úthlutað kvóta komið hlaupandi með arðinn af þeirri sölu til landverkafólksins eða sjómannanna? Vitaskuld hafa þeir ekki gert það. (Forseti hringir.) Ég skil vel að hv. þingmaður og þingflokkur Sjálfstfl. vilji verja þetta kerfi og neita veiðileyfagjaldinu vegna þess að þeir vilja viðhalda ókeypis úthlutuðum veiðiheimildum. Ég skil það ósköp vel. Þeir eru að berjast fyrir hagsmunum sínum. Sjálfstfl. og Framsfl. eru að berjast fyrir hagsmunum sínum í þessum efnum. Þeir vilja hafa áfram ókeypis úthlutanir veiðiheimilda. (Forseti hringir.) En þjóðin í landinu er búin að fá nóg af þessu kerfi.