Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:48:50 (325)

1997-10-09 14:48:50# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði svipaðrar spurningar þegar þessi mál voru til umræðu hér í fyrra. Ég hef ekki tíma á tveimur mínútum til þess að gera ítarlega grein fyrir stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum sem er útlistuð í okkar stefnuskrá mjög skýrt.

Við erum í stjórnarandstöðu, Kvennalistinn er ekki stór stjórnmálaflokkur, og við þessar aðstæður hefur landsfundur okkar samþykkt að veiðileyfagjald væri ásættanleg leið til þess að búa við það kerfi sem nú er. En okkar hugmyndir eru að öðru leyti aðrar, þ.e. við viljum gera greinarmun á grunnsjávarmiðum og djúpsjávarmiðum og við höfum m.a. verið talsmenn byggðakvóta til að fyrirbyggja að heilu byggðarlögin geti lagst af eins og gerist í núverandi kerfi.