Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:22:08 (336)

1997-10-09 15:22:08# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:22]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það fólkið í landinu sem á þessa auðlind. Með veiðileyfagjaldi er verið að tryggja að hluti af arðinum við nýtingu auðlindarinnar renni beint til fólksins.

Ég fagna því þegar þingmaðurinn segist vilja leggja það á sjávarútveginn að hann eigi að standa undir kostnaði við sjálfan sig en ekki ríkið. Það eru einir 3 milljarðar. Við höfum að vísu ekki lagt til 3 milljarða. Við höfum lagt til 2 milljarða. Veiðileyfagjaldshugmyndafræðin nær hins vegar lengra. Þegar fiskveiðiarðurinn mun aukast í sjávarútvegi og það bendir allt til að svo muni verða, þá verði tekinn áfram hluti af þessum arði út úr greininni. Það verða tveir milljarðar í fyrstu. Síðan verða það þrír, fjórir, fimm eða sex. Þeir geta orðið býsna margir en samt verið góður hagnaður eftir í greininni. Þetta hef ég bent á í minni framsöguræðu. Þetta eru nákvæmlega sams konar aðferð og Norðmenn notuðu við sína auðlindagjaldtöku við olíu. Þessi hugmyndafræði byggir á því að það sé arður í greininni og stýrikerfi verði til staðar sem myndar þennan arð og við sjáum núna að það er arðsemi í greininni. Þess vegna ganga veiðiheimildir kaupum og sölum á tiltölulega háu verði og þess vegna eru hlutabréf tiltölulega hátt skráð. Það er alveg rétt hjá þingmanninum að það að bjóða allt upp mun kosta ýmiss konar röskun. Ég er alveg sammála þingmanninum um að það þarf að hugsa mjög vandlega í hvaða formi það verður útfært og kannski á það að gerast í áföngum.

Aðalatriðið í þessari umræðu er að viðurkenna hvort menn eru sammála því pólitískt að ókeypis úthlutun verðmæta eins og stunduð er núna geti ekki átt sér stað og eigi ekki að eiga sér stað. Það er síðan hægur vandi að útfæra álagningarleiðina með þessum einum, tveimur eða þremur aðferðum eða fyrstu tveimur, segjum svo, og gera það skynsamlega þannig að ekki verði kollsteypa í efnahagskerfinu. Þetta er fyrst og fremst pólitísk spurning.