Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:24:22 (337)

1997-10-09 15:24:22# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:24]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg þá ályktun eftir þessi orðaskipti okkar hv. þm. Ágústs Einarssonar að við séum í rauninni nokkuð sammála um að sú auðlindastýring sem viðhöfð er í dag, þ.e. að leggja á svokallað þróunarsjóðsgjald og gjald á aflaheimildir eða þorskígildistonn, sé í raun það sem fullnægi þeirri kröfu að greinin borgi fyrir þennan aðgang, að það sé aðferðin. Það er í rauninni taktíkin sem við höfum viðhaft og það er sú taktík sem við eigum að þróa betur. (Gripið fram í: Fyrsta skrefið.) Fyrsta skrefið hefur þegar verið stigið. (Gripið fram í: Ekki fet.) Mér finnst menn gleyma því í þessari umræðu. Það er alltaf verið að tala um þetta eins og það hafi aldrei verið lagt neitt á sjávarútveginn á síðustu árum, ekki einn einasti skattur, að hann hafi verið skattlaus alla tíð. Auðvitað er það hrikalegur misskilningur og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði áðan að útgerðin borgaði helst aldrei nokkurn skapaðann hlut til sveitarfélaga eða einna né neinna. Auðvitað er þetta kolrangt. Útgerðin byrjar náttúrlega á því að borga aflagjald til hafnanna sem hefur verið 0,75 eða 0,8 og upp í 1% af aflaverðmæti. Hún borgar til sveitarfélaga og ríkis alls konar gjöld af launum og öðru slíku. Útgerðin og fiskvinnslan hafa greitt verulega mikla skatta. En því miður verður að segjast að sumar greinar innan sjávarútvegsins hafa staðið illa og það virðist ekki ætla að verða mikil bót á því, a.m.k. sér maður ekki að botnfiskvinnslan ætti að standa undir miklum auknum gjöldum á næstu árum.