Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:26:40 (338)

1997-10-09 15:26:40# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:26]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú mikilvægt í heitri umræðu sem þessari að menn fari með rétt mál í ræðum sínum og alveg sérstaklega mikilvægt að menn fari ekki vísvitandi með rangt mál. Því miður gerði hv. þm. Kristján Pálsson sig sekan um það síðarnefnda áðan þegar hann ítrekað hélt því fram í sinni ræðu að á síðasta þingi hefðu verið samþykkt sérstök lög sem heimiluðu veðsetningu aflahlutdeildar. Það sagði hann ekki bara einu sinni og ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum. Ég vil því leiðrétta þetta og bera þetta til baka, benda þingmanninum á að lesa þau lög sem voru samþykkt, þar sem það stendur í þeim skýrum stöfum að það sé bannað veðsetja aflahlutdeild. Og það er í fyrsta skipti síðan tekin var upp stjórn fiskveiða með núverandi kerfi árið 1984 sem fer í lög bann við því að veðsetja aflahlutdeild, fyrsta skipti. Það tók 12 ár að fá menn til að samþykkja það að banna að veðsetja aflahlutdeildina og það er sem betur fer búið að gera það núna.

Mér er hins vegar ljóst að hv. þm. Kristján Pálsson var á móti því að setja bannið og greiddi atkvæði á móti því en hann verður að eiga það við sig.