Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:28:14 (339)

1997-10-09 15:28:14# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst sorglegt að heyra í skynsömum mönnum eins og Kristni Gunnarssyni vera að ásaka menn um vísvitandi lygar eða að fara rangt með. Ég ætla að biðja hv. þm. um að lesa þessa grein til enda og skilja hana. Að vísu er það rétt að það stendur í henni að bannað sé að veðsetja aflaheimildir en það stendur ekki að það sé ekki leyfilegt að veðsetja aflaheimildir með skipi og um það stóð stríðið, þ.e. að það er leyfilegt að veðsetja aflaheimildir með fjárverðmæti og það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að hrista hausinn yfir því. Þú ættir bara að koma hingað með lögin og lesa þau. Ég kann ekki við að það sé verið að halda því fram í ræðustól á Alþingi að þingmenn fari með rangt mál, ekki einu sinni heldur þrisvar.

Ég get alveg sagt það sama um hv. þm. að hann hafi vísvitandi verið að reyna að fara hér með rangt mál eða bera upp á mig einhverjar lygar, sem er fjarri öllu lagi. Á bak við minn rökstuðning fyrir þessu máli hafði ég álit hæstaréttarlögmanna, lagaprófessors og fleiri aðila sem höfðu kafað ofan í þetta mál. Ég held að hv. þm. ætti einnig að kynna sér t.d. sölu á útgerðarfyrirtækjum sem eru að seljast á háu verði þar sem ,,járnið`` í pakkanum er ekki nema brot af heildinni. Veðsetningin á öllu heila galleríinu gengur síðan yfir og það er náttúrlega kvótinn sjálfur sem skiptir þar öllu máli en ,,járnið`` í pakkanum skiptir sáralitlu eða engu máli. Og að segja svo um leið að veðsetning á aflaheimildum hafi verið bönnuð. Það er svo ótrúlega barnalegt að halda þessu fram að ég trúi því varla að hv. þm. Kristinn Gunnarsson sé enn við þetta heygarðshornið. (Gripið fram í: Heyr!)