Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:50:48 (348)

1997-10-09 15:50:48# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:50]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrirspurn var beint til okkar alþýðubandalagsmanna og ég ætla að reyna eftir föngum að svara henni fyrir mitt leyti, aðrir verða að svara fyrir sig í þeim efnum. En ég hef með tillöguflutningi hér á þingi, bæði á síðasta þingi og nú í haust, lagt fram frumvörp sem snerta stjórn fiskveiða. Þau lýsa því að ég er þeirrar skoðunar að það sé fjarri því að um sé að ræða fullkomið kerfi sem við búum við. Þvert á móti er ég þeirrar skoðunar að þar séu miklir vankantar á.

Ég hef í þessum frumvörpum leitast við að finna í hverju vandinn er fólginn og koma fram með tillögur til úrbóta á þeim sviðum.

Síðan langar mig til þess að varpa fyrirspurn til þingmannsins sem undrast það af hverju við alþýðubandalagsmenn sættum okkur við að aflaheimildirnar færðust á færri hendur eða á hendur örfárra eins og þingmaðurinn orðaði það. (Gripið fram í: Ókeypis.) Það er nú ekki rétt að það sé ókeypis. Það er búið að draga það fram í þrjú ár. Ég kalla það mikil firn ef menn eru ekki búnir að læra það enn þá að það er ekkert ókeypis í úthlutun veiðiheimilda hér á Íslandi. En ég spyr þingmanninn: Verða það sjálfkrafa fleiri hendur sem ráða veiðiheimildunum við það eitt að leggja á veiðileyfagjald? Það hef ég ekki séð. Ég hef ekki séð að það breyti ráðstöfunum núverandi veiðiheimilda að leggja bara á veiðileyfagjald. (Gripið fram í: Þeim hefur fækkað.) Þeir verða jafnfáir eða jafnmargir og þeir eru í dag við þá breytingu. En ég spyr þingmanninn þá á móti: Hvað telur þingmaðurinn að veiðiheimildirnar eigi að skiptast mikið? Ef þeir sem hafa veiðiheimildir í dag eru of fáir, sem eru 2.000 eða eitthvað slíkt, hvað telur þingmaðurinn þá að þeir þurfi að vera margir til að það sé ásættanleg dreifing?