Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:24:11 (361)

1997-10-09 16:24:11# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:24]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo sannarlega tilbúinn til að tjá mig um þessi mál,hv. þm. Ágúst Einarsson, ég hef setið hér og hlustað grannt þrátt fyrir það að í umræðunni hefur akkúrat ekkert nýtt komið fram og hún hefur sáralitlu skilað.

Á síðasta þingi fluttu sömu aðilar og hér hafa talað mest í dag tillögu um að leggja 17 milljarða kr. auðlindaskatt á sjávarútveginn. Sem svar við spurningu hv. þm. Ágústs Einarssonar er ég andvígur auðlindaskatti í sjávarútvegi. Ég tel hins vegar að sjávarútvegurinn eigi eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu að greiða eðlilega skatta af starfsemi sinni en til þess þarf greinin þá að fá þann grundvöll að hún geti hagnast.