Fyrirhuguð ferð utanríkisráðherra til Indónesíu og annarra Asíulanda

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:02:07 (366)

1997-10-13 15:02:07# 122. lþ. 7.1 fundur 41#B fyrirhuguð ferð utanríkisráðherra til Indónesíu og annarra Asíulanda# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til utanrrh. Svo vill til að ég fékk í pósti fyrir skömmu bréf þar sem boðaður er undirbúningur að opinberri heimsókn hæstv. utanrrh. til Asíu á árinu 1998. Hér er á ferðinni bréf sem Útflutningsráð Íslands virðist senda og virðist standa að þessum undirbúningi fyrir hönd utanrrh. að einhverju leyti. Þar er greint frá því að fyrirhuguð sé opinber heimsókn með stórri viðskiptasendinefnd íslenskra fyrirtækja undir forustu hæstv. utanrrh. á næsta ári til Asíulanda. Til greina komi að ferðin verði til tveggja Asíulanda. Síðan eru þeir sem við bréfinu taka beðnir að láta í ljós álit sitt á því hver af nokkrum Asíulöndum sé áhugaverðast eða æskilegast að heimsækja. Í raun er þetta lagt upp sem nokkurs konar krossapróf eða vinsældakönnun meðal sjálfsagt fjölmargra forsvarsmanna fyrirtækja og stjórnmálamanna um þetta efni.

Það vakti athygli mína og undrun, svo ekki sé sagt forundran, að í hópi þeirra landa í Suðaustur-Asíu, sem hæstv. utanrrh. virðist vera að láta Útflutningsráð undirbúa heimsókn til er Indónesía. Er það ríki sem einna svakalegast hefur gengið fram í mannréttindabrotum og fjöldamorðum á saklausu fólki á undanförnum árum. Hv. þingmenn vita til hvers ég er að vísa, þ.e. þjóðarmorðsins á Austur-Tímor, sem heimsbyggðin hefur sem betur fer aðeins verið að vakna til vitundar um samanber afhendingu friðarverðlauna Nóbels á sl. ári og fleira í þeim dúr.

Spurningar mínar til hæstv. utanrrh. eru því þessar: Er það gert með vitund og vilja hæstv. utanrrh. að hafa Indónesíu á lista yfir þau lönd sem hæstv. ráðherra kunni að heimsækja eða fara fyrir sendinefnd til á næsta ári? Telur hæstv. utanrrh. það koma til greina að íslenskur ráðherra heimsæki Indónesíu sem formaður sendinefndar? Er hæstv. utanrrh. tilbúinn til að lýsa yfir að þetta verði ekki gert?