Fyrirhuguð ferð utanríkisráðherra til Indónesíu og annarra Asíulanda

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:06:12 (368)

1997-10-13 15:06:12# 122. lþ. 7.1 fundur 41#B fyrirhuguð ferð utanríkisráðherra til Indónesíu og annarra Asíulanda# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að játa að svör hæstv. utanrrh. eru mér mikil vonbrigði. Ég var satt best að segja að vona að hér væri hreint aðgæsluleysi á ferð og mönnum hefði yfirsést í hita leiksins að það væri að sjálfsögðu ekki við hæfi á nokkurn hátt að íslenskur ráðherra, og síst af öllum hæstv. utanrrh., fari fyrir fjölmennri og stórri sendinefnd í einhverja góðviljaheimsókn til að reyna að kría út aukin viðskipti við Indónesíu. Ég mótmæli því algjörlega. Ég harma að hæstv. utanrrh. skuli staðfesta að það sé sem sagt með vitund og vilja eða stuðningi utanrrn. og utanrrh. að Útflutningsráð hefur Indónesíu á listanum yfir þau lönd sem verið er að undirbúa að heimsækja. Það þarf ekki að fjölyrða um ástand mannréttindamála eins og það hefur verið þar. Ég verð að segja alveg eins og er að það leggst lítið fyrir menn þegar þeir eru að þenja sig um ástand mannréttindamála hér og þar í heiminum en þegar kemur að buddunni þá skal sú þjóð, (Forseti hringir.) það ríki sem stundað hefur grófustu þjóðarmorð, fjöldamorð, á síðari áratugum verðlaunað sérstaklega með auknum viðskiptum. Þetta er mikil sneypa, herra forseti.