Skýrsla OECD um framlög til menntamála og yfirvofandi kennaraverkfall

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 15:20:29 (381)

1997-10-13 15:20:29# 122. lþ. 7.1 fundur 44#B skýrsla OECD um framlög til menntamála og yfirvofandi kennaraverkfall# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:20]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér rækilega skýrslu OECD og einnig þær tölur sem þar birtast og velt því fyrir mér eins og ýmsir aðrir sem hafa kynnt sér tölurnar hvort um sambærilegar tölur sé að ræða milli Íslands og annarra landa. Það er það fyrsta sem menn þurfa að gaumgæfa og velta fyrir sér. Það kemur einnig í ljós þegar þessar tölur eru skoðaðar að styttri vinnutími kennara hér á landi vegur verulega upp á móti þeim mun sem er á milli framlaga hér og annars staðar þegar þetta er kannað ofan í kjölinn. Þetta hefur verið rannsakað á mínum vegum og þessar tölur liggja fyrir og ég get gert þingheimi betur grein fyrir því máli ef óskað er, en ekki er tími til þess undir þessum dagskrárlið. En það er sjálfsagt að menn fari betur ofan í þessar tölur, kynni sér þær og átti sig á því hvaða úrræði eru best til þess að jafna þann mun sem þarna kemur fram ef nánari rannsókn sýnir að það sé annað heldur en þá að lengja skólaárið eða breyta skipan skólamála hér og færa það í svipað horf og gildir í öðrum löndum.

Að því er varðar frumkvæði af hálfu menntmrh. vegna verkfalls kennara, ef til þess kæmi sem við skulum nú vona að verði ekki heldur takist að semja á milli sveitarfélaganna og grunnskólakennara á næstu dögum, þá er um það að segja að hvergi var á það minnst í viðræðum um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna að ríkisvaldinu bæri að hafa afskipti af kjaramálum kennara eða koma að launasamningum þeirra við sveitarfélögin. Þvert á móti lá það skýrt fyrir að hér væri alfarið um verkefni sveitarfélaganna og kennara að ræða, þess vegna væri með öllu óeðlilegt að ríkið færi að skipta sér af málinu núna á þessu stigi miðað við forsöguna og aðdraganda þess að grunnskólinn var fluttur frá ríkinu til sveitarfélaga.